144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:05]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka þetta mál upp og einnig hæstv. ráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Þetta er mjög mikilvægt mál eins og frummælandi fór yfir. Það er full ástæða til að staldra við, hugsa um og hafa áhyggjur af minnkandi hreyfingu, bæði í leik og starfi, og ef við getum að reyna að sporna við.

Um 20% barna á Íslandi eru of feit eða í ofþyngd. Um 10% þeirra eru það alveg frá sex ára aldri. Þar af leiðandi verður erfiðara fyrir þessi börn að hreyfa sig. Hreyfingarleysi og ofþyngd fylgja lífsstílssjúkdómar eins og hér er fjallað um. Talið er að um 85% Evrópubúa láti lífið af völdum þessara sjúkdóma, alzheimers, krabbameins, sykursýki 2, offitu og margra fleiri.

Þess vegna held ég að mikilvægast í þessu máli séu forvarnir og fræðsla og eins og hv. frummælandi fór yfir þurfum við að ná fram hugarfarsbreytingu. Næringarvitund er sú fræðsla sem við þurfum að efla fyrir foreldra, börn og alla hina. Þótt hreyfing sé holl og geti dregið úr lífsstílstengdum sjúkdómum tel ég að bætt mataræði sé mun mikilvægara. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og þar af leiðandi hvernig þau næra sig. Fræðsla til þeirra er einn mikilvægasti þátturinn í þessu máli.

Svo er hitt sem snýr að börnunum. Þá getum við reynt að efla íþróttir í skólum og gera næringu hærra undir höfði. Ég mundi vilja sjá næringarfræði kennda á einhverju stigi í grunnskólum, almenna næringarfræði til að efla vitund barnanna og gera þau meðvituð um þær afleiðingar sem lífsstílssjúkdómar geta valdið í framtíðinni.