144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni, hæstv. ráðherra og þátttakendum fyrir framlag þeirra í umræðunni.

Í örstuttu máli er þetta svona: Á mjög fáum árum eða áratugum er þjóðfélagið búið að breytast með þeim hætti að við þurfum ekki lengur að hafa áhyggjur af skortsjúkdómum en við höfum áhyggjur af ofgnóttarsjúkdómum. Hreyfingarleysi, kyrrseta og offita er raunveruleg ógn. Ef við viljum taka á því þarf að ganga skipulega til verka.

Ég lagði mitt af mörkum sem heilbrigðisráðherra á sínum tíma og undir forustu sérfræðinga komu tugir aðila að sem mótuðu svokallaða heilsustefnu þar sem voru mælanleg markmið aðgerða í grunn- og leikskóla og á fleiri sviðum. Það er að mínu áliti eina leiðin til að vinna á vandanum, þ.e. samspil rannsakenda, skóla og fjölskyldna. Þetta þurfa ekki að vera flóknir hlutir. Þetta snýst um að veita viðurkenningar fyrir það ef fólkið sem gefur börnunum okkar að borða í leikskólum og grunnskólum uppfyllir þau viðmið sem nauðsynleg eru. Það er eitt dæmi.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er ekki mikið eldri en ég og við vorum á sínum tíma álíka lengi í grunnskóla en börnin sem eru núna í grunnskóla eru þar miklu lengur yfir daginn og lengur yfir árið en þau eru með jafn margar hreyfistundir, þ.e. einn sundtími og tveir leikfimistímar. Þau þurfa meiri hreyfingu. Ef við erum komin á þann stað að sátt sé um að börnin séu í opinberum stofnunum, eins og þau eru, þá þurfum við að gera ráðstafanir hvað það varðar. Við þurfum að gera hreyfingu að lífsstíl og fólk þarf að vinna saman. Aðalatriðið er þó að vinna þetta skipulega og ég fagna því að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn vinna þannig, að við séum með skilgreindar áætlanir, skilgreind markmið og mælanleg markmið svo að við séum ekki með enn eitt plaggið því að það (Forseti hringir.) er til heilt herbergi af plöggum um áætlanir um (Forseti hringir.) hvað menn vilja gera. Við þurfum að hafa þetta mælanlegt (Forseti hringir.) og við þurfum að sjá hvernig okkur gengur. (Forseti hringir.)

Málið er gott og ég þakka (Forseti hringir.) hv. þingmanni fyrir að taka það (Forseti hringir.) upp.