144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af máli mínu í fyrri ræðu vil ég segja að ég er því sammála að hefja þurfi átak vegna þeirrar vár sem einstaklingum og þar með samfélaginu öllu stafar af lífsstílstengdum sjúkdómum. Við þurfum að bregðast við. Við þurfum öll að bregðast við sem einstaklingar, kannski ekki hvað síst sem uppalendur og vera börnunum okkar og ungmennunum góðar fyrirmyndir, bjóða þeim upp á og fræða þau um mikilvægi þess að borða hollt og stunda hreyfingu og hreyfa okkur jafnvel með þeim.

Við þurfum ekki síður að bregðast við sem stjórnvald, sem löggjafarvald, því að þar höfum við öflugustu tækin til að takast á við vandamálið. Stjórnvöld gegna lykilhlutverki í samvinnu við aðra hagsmunaaðila í að skapa umhverfi sem styrkir og hvetur einstaklinga, fjölskyldur og samfélög til að taka jákvæðar ákvarðanir varðandi heilsusamlegt líferni.

Gerð samfélaga og aðgerðir stjórnvalda hafa áhrif á þróun offitu og lífsstílstengdra sjúkdóma. Rannsóknir sýna að mikil misskipting í þjóðfélögum hefur neikvæð áhrif á heilsufar íbúa. Við höfum tækin til að jafna kjör fólks og gera þannig öllum foreldrum kleift að bjóða börnunum sínum að stunda íþróttir, útivist og hreyfingu. Við höfum tækin til að hafa jákvæð áhrif á neyslu fólks og ýta undir hollt mataræði. Það gerum við hins vegar ekki með því að lækka skatta á sykraða vöru og það gerum við heldur ekki með því að hækka skatta á önnur matvæli. Þess í stað eigum við, að mínu mati, að sameinast um samfélagsgerð sem gerir öllum foreldrum kleift að gefa börnunum sínum hollan og góðan mat sem veitir þeim tækifæri til að stunda heilsueflandi tómstundir, (Forseti hringir.) sama hver félagsleg staða þeirra er. Þannig held ég að við mundum ná góðum árangri í lýðheilsumálum.