144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni að hefja þessa umræðu og sömuleiðis þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er rétt hjá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni að þetta er verðugt viðfangsefni.

Í ljósi orða hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, sem féllu hér áðan, vil ég vitna til þess sem segir í minnisblaði frá embætti landlæknis varðandi ofþyngd, með leyfi forseta:

„Á síðari hluta 20. aldar var mikil aukning á hlutfalli þeirra barna sem flokkuðust of þung eða of feit en mælingar undanfarinn áratug benda ekki til merkjanlegrar aukningar hvað þetta varðar. Þrátt fyrir að vísbendingar séu um jákvæða breytingu í þróun offitu á meðal fullorðinna og barna á síðustu árum er mikilvægt að horfast í augu við stöðuna og til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag að stuðla með ábyrgum hætti að heilsusamlegu holdafari og lífsháttum landsmanna almennt.“

Þetta sýnir okkur líka að umræðan sem hefur verið og áherslan frá frumherjum í þessu og áhugafólki ber árangur. Við eigum að draga lærdóm af því starfi sem unnið hefur verið. Við getum náð árangri í þessu. Við getum bætt okkur til muna og gert meira en gert hefur verið. Þær tölulegu staðreyndir sem hér eru lagðar fram benda til þess að það sé mikið verk að vinna.

Ég vil aðeins nefna hér varðandi skólastarfið að allir framhaldsskólar eru þátttakendur í átakinu Heilsueflandi framhaldsskóli. Þriðjungur grunnskóla er þátttakandi í Heilsueflandi grunnskóla og leikskólarnir eru að detta inn hægt og bítandi í Heilsueflandi leikskóla en ekki nógu hratt. Þar er megináherslan lögð á hreyfingu, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsu, fjölskyldu, nærsamfélag og starfsfólk. Ég fullyrði að það er verið að reyna að vinna vel í þessum efnum. Við getum gert mun betur og með aukinni menntun og þekkingu á þessu sviði er ég sannfærður um að við munum ná að vinna enn öflugra starf en hingað til. (Forseti hringir.)

Við skulum taka undir þá áskorun sem kemur fram í máli hv. málshefjanda.