144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

aðgerðir til að draga úr matarsóun.

21. mál
[16:38]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir flutning á þessari ágætu þingsályktunartillögu. Ég tel að umræðan sem fór fram fyrr í vikunni hér í þingsölum vitni um það að góð viðbrögð verði við tillögunni. Ég bendi á að það er mjög heppilegt að hæstv. umhverfisráðherra er jafnframt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ég held að hann sameini þau þrjú svið sem falla mjög vel að tillögunni. Ég vonast til að hún fái góðan framgang, enda er eins og flutningsmaður gat um þegar vinna í gangi í þessum málum.

Ágæt greinargerð fylgir tillögunni og þar er bent á að það eru að minnsta kosti sjö liðir á leið matvæla þar sem sóun á sér stað og hún endar náttúrlega hjá neytandanum sjálfum, en víða á leiðinni er þessi sóun líka til vansa.

Annað sem mér fannst skemmtilegt, ef hægt er að orða það þannig, sem flutningsmaður benti á er nýtni. Það er líka matarsóun að nýta ekki matinn sem er þó kominn heim og hún bendir á að unnt sé að vinna á betri hátt úr matarafgöngum.

Sannarlega hefur orðið vitundarvakning og ekki bara hér heima, en hér var haldin ráðstefna sem frjáls félagasamtök stóðu fyrir eins og Landvernd, Vakandi og Kvenfélagasamband Íslands. Kvenfélagasamband Íslands er náttúrlega höfuð allra kvenfélaga vítt og breitt um landið og ef þau sameinast um þetta málefni og taka höndum saman þá er það ekki lítið afl sem þar er á ferðinni. Ég vonast því til að hægt sé að vinna þetta á mörgum sviðum. Það hefur því orðið vitundarvakning hér heima en líka annars staðar á Norðurlöndum, þar er norræn samvinna, og Sameinuðu þjóðirnar hafa líka sett þetta mál fram, þannig að mér sýnist að verið sé að vinna að þessu víða um heim.

Mig langar aðeins út af nýtninni að vitna í það að þjóðsögur okkar segja oft mikið meira en við höldum. Þetta er ekki bara skemmtiefni fyrir börn heldur getum við lesið á milli línanna hvernig samfélagið var eða hvernig almenningur hafði það á þeim tímum. Í einni þjóðsögunni segir að það hafi verið Kristur sjálfur sem kom til fátæku ekkjunnar og kenndi henni að nýta betur undanrennu með því að þeyta hana. Ég veit ekki hvort ungir þingmenn vita hvað flautir eru, við þekkjum orðið flautaþyrill, það er yfirleitt notað um óstöðuglyndan karlmann, en flautir var það kallað þegar undanrenna var þeytt eða mjólk þannig að hún virkaði meiri að efnismagni. Þess vegna segi ég í framhjáhlaupi að við eigum ekki að tala um latte, við eigum að tala um flautir því að það er í raun forníslensk matreiðsluaðferð að þeyta mjólkina svo að hún virki meiri og verði loftkenndari. Í gamla daga var þetta reyndar fremur notað sem eftirréttur.

Ég veit um annað stig þar sem mikil sóun getur átt sér stað og það er í verslununum. Sú sem hér stendur starfaði sjálf í verslunum um aldarfjórðungsskeið, sem svokallaður kaupmaður á horninu, og maður gerði sér alveg grein fyrir því að það þurfti að hafa vakandi auga með vörunni til þess að ekki ætti sér stað sóun, þ.e. til að verslunin sem slík þyrfti ekki að henda miklu magni af matvælum. Auðvitað var reynt að gera allt til þess að það yrði ekki, bæði til þess að verslunin bæri sig og líka út af því að maður hafði náttúru fyrir því að henda ekki mat og var meðvitaður um þá sóun.

Ég held samt að það sem hafi kennt mér mest um sóun og sem skýrir hvers vegna ég er svona hrifin af flutningi þessarar tillögu sé það að ung að árum dvaldi ég um fimm ára skeið úti í Þýskalandi og það hefði verið algjör glæpur ef maður hefði hent mat þar, bara glæpur. Ég kom þarna sem ung kona út til Þýskalands, og tel að ég hafi verið alin upp við nýtni en það var ekkert eins og þarna var. Þar var fólkið ekki enn þá búið að jafna sig á þeim gríðarlega skorti sem það þurfti að búa við um nokkurra ára skeið meðan seinni heimsstyrjöldin stóð yfir. Mér varð einhvern tíma á að henda harðri skorpu í ruslafötu á mínum vinnustað og ég var tekin í gegn. Ég er ekki að óska eftir einhverjum öfgum en ég held að þetta sé þarft mál og orð eru til alls fyrst. Ég vonast til að við sameinumst um að hér verði áframhaldandi vitundarvakning og hún skili árangri.