144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta afar yfirgripsmikil tillaga. Þegar ég byrjaði að lesa hélt ég að þetta næði eingöngu til líffæragjafar, þ.e. að við festum þennan sjálfsákvörðunarrétt með skráningu í samþykkisskrá. Síðan er dregið fram í greinargerðinni og reyndar líka í liðunum í upphafi það sem þetta á að fara í gegnum, þ.e. hugmyndin að setja þetta í gegnum skráningu hjá ríkisskattstjóra þegar við skilum skattframtali. Ég spyr: Telur þingmaðurinn að hugmyndirnar sem hér koma fram að gætu verið í þessu samþykkisfrumvarpi geti allar saman farið fram með skráningu skattframtals, þ.e. að þegar við skilum skattframtalinu okkar sé hægt að haka við alla þessa þætti og allt sem þar er talið upp?

Hér er líka talað um leyfisveitingar og annað því um líkt sem hægt væri þá að byggja þessa samþykkisskrá á. Telur hann framkvæmanlegt að gera þetta svona? Mér finnst þetta svolítið yfirgripsmikið og hefði kannski talið heppilegra að byrja bara á því sem sneri að líffæragjöf og heilbrigðisrannsóknum eða vísindum.