144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Sökum þess sem hv. þingmaður nefndi um flækjustig málsins langar mig aðeins að ræða muninn á flækjustigi þess málefnis sem við erum að ræða annars vegar og hins vegar tæknilegu flækjustigi við að innleiða þær hugmyndir sem birtast í þessari þingsályktunartillögu.

Tæknilega er þetta mjög einfalt. Út frá tæknilegu sjónarmiði gæti ég sjálfur búið til vefsvæði sem gerir þetta. Vandinn við það væri að ég get ekki tryggt lagalega stöðu þeirra gagna. Mér finnst eðlilegt að hæstv. ráðuneyti komi að því að móta þau lög vegna þess að ráðuneytið veit best hvernig best er að haga þeim málum. Sömuleiðis mundi ég hreinlega ekki nenna að tryggja öryggi gagna jafn vel og ég geri ráð fyrir að þyrfti að gera.

Eins og ég segi, þótt málefnið sé flókið og það sé margt að ræða þegar kemur að líffæragjöf, nýtingu persónugagna til hins eða þessa — það eru flókin málefni — getur lausnin verið mjög einföld. Það er þess vegna sem við leggjum þetta fram hérna. Það er vegna þess að nútímatæknin býður upp á tiltölulega einfaldar lausnir á tiltölulega flóknum málum.