144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

vísun máls um verslun með áfengi til nefndar.

[17:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hægt að taka undir það með hv. þingmönnum að eðlilegt sé að heilbrigðisráðherra sé viðstaddur umræðu um málið, einkanlega vegna þess að hann er úr þingflokki flutningsmannsins og eðlilegt að hann svari því hvort hann styðji framlagningu málsins. Þá þætti mér ekki óeðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra væri við umræðuna þar sem um forgangsmál Sjálfstæðisflokksins í þinginu er að ræða. Sem formaður flokksins hlýtur hann að vera viðstaddur umræður um forgangsmál flokksins í þinginu.

Það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að auðvitað hlýtur málið að koma til umfjöllunar í velferðarnefnd, hún hlýtur að vera umsagnaraðili um málið. Málið hlýtur þó að vera á forræði efnahags- og viðskiptanefndar því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fellur undir fjármála- og efnahagsráðherra og tekjuöflunarhlið fjárlaganna og sömuleiðis viðskiptin, þ.e. verslunarfrelsi í landinu, falla undir verksvið efnahags- og viðskiptanefndar. Mál sem koma frá fjármálaráðherra og varða þessa hluti fara til nefndarinnar og sama gildir auðvitað um þingmannamál, á því held ég að sé enginn vafi.