144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi haft mörg ómakleg ummæli uppi hér í garð ÁTVR.

Hv. þingmaður er fullyrðingasamur eins og við heyrðum meðal annars í svarinu hér áðan. Það var gaman að heyra hann framkvæmda hér vísindarannsóknir sjálfan talandi úr ræðustólnum og veifandi blöðum þar um, en nefndi aldrei eina einustu lýðheilsurannsókn eða rannsókn fagfólks á skaðsemi áfengis og mikilvægi þess að framfylgja aðhaldssamri stefnu.

Hv. þingmaður fullyrði meðal annars að verslunin muni blómgast í landinu og ferðaþjónustan muni styrkjast. En mun þá ekki veitingarekstur og rekstur vínveitingahúsa veikjast? Eða eiga allir að græða? Og hvers vegna þá? Vegna aukinna umsvifa? Vill hv. þingmaður fara aðeins betur yfir það með okkur hvers vegna þetta á að vera svona rosalega gott í viðskiptalegu tilliti fyrir alla. Er það vegna þess að hv. þingmaður reiknar með stórauknum umsvifum, ef einn græðir þá hlýtur annar að tapa ef umsvifin aukast ekki? Er það ekki eðlileg hugsun í viðskiptum?

Getur hv. þingmaður aðeins betur reynt að slá botn undir þennan málflutning sinn?