144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem var ágæt, yfirveguð og málefnaleg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tvennt. Þetta mál hefur verið lagt fram í allmörg skipti og mér telst svo til að í hvert eitt og einasta skipti hafi verið á því meðflutningsmenn úr þeim flokki sem hv. þingmaður er í, úr Samfylkingunni. Þannig hafa núverandi formaður og varaformaður Samfylkingarinnar verið stuðningsmenn þessa máls, verið meðflutningsmenn á því, og jafnframt hv. þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, hann var einnig meðflutningsmaður á máli sem þessu.

Því spyr ég: Hvað er það sem hefur breyst í afstöðu og stefnu Samfylkingarinnar sem gerir að verkum að þeir aðhyllast ekki viðskiptafrelsi hvað varðar þessa tegund vöru, sem sumir kalla landbúnaðarvöru, sem sprottin er úr þrúgum að einhverju leyti? Þetta er fyrri spurningin. Hin síðari snýr að því hvaða afstöðubreyting það sé hjá Samfylkingunni að vera að hringla með það í hvaða nefnd þetta mál fer.

Auðvitað væri hægt að segja að þetta mál ætti heima í flestöllum nefndum þingsins eins og oft er með mál sem eru stór og snerta marga fleti. En þegar þetta mál hefur komist það langt í meðförum þingsins að það hafi ratað til nefndar þá hefur það farið í allsherjarnefnd.

Hvað er það sem hefur breyst, hvað varðar hlutverk allsherjarnefndar, sem kallar á þessa stefnubreytingu af hálfu Samfylkingarinnar? Enda get ég ekki séð af þingtíðindum, ég hef reyndar ekki náð að grandskoða þau, að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi beitt sér sérstaklega gegn því að málið færi til þeirrar nefndar.