144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað breytast tímarnir og tíðarandinn. Auðvitað hefur tíðarandinn áhrif líka í þessum sölum og á löggjöfina. Eitt af því sem hefur breyst og dregið úr því hversu margir hafa talið knýjandi þörf á breytingum á þessu sviði til að mynda er að vínbúðirnar sem í hlut eiga hafa breyst mjög mikið frá þeim einokunarverslunum sem voru þegar ég náði tvítugsaldrinum sjálfur. Nú er þetta orðið í verslunarmiðstöðvum hringinn í kringum landið, jafnvel hluti af annarri verslunarstarfsemi, opið langtímum saman, auglýst í fjölmiðlum o.s.frv. Auðvitað hafa orðið gríðarlegar breytingar þarna eins og annars staðar.

Hvað varðar sjónarmið þingmannsins um að málið eigið heima í velferðarnefnd get ég tekið undir að efnislega væru rök fyrir því. Hér takast á tvenn sjónarmið, annars vegar sjónarmið um verslunar-, viðskipta- og atvinnufrelsi sem klárlega á heima í efnahags- og viðskiptanefnd, og málið varðar fjáröflun ríkissjóðs þannig að af þeim sökum ætti það líka heima þar. Hins vegar eru lýðheilsusjónarmiðin og hin skýra krafa hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um að málið megi undir engum kringumstæðum verða til þess að auka unglingadrykkju að neinu leyti. Út frá þeim sjónarmiðum væri eðlilegt að sjá því komið fyrir í hv. velferðarnefnd. En það er hins vegar eins og hvert annað grín að hér sé um menntamál að ræða. Það geta menn ekki hafa meint í fyrri ræðum sínum.