144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar meðferð mála í nefndum. Ég minnist þess líka frá veru minni sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hér um árabil að nefndin tók til umfjöllunar mál sem lutu að áfengis- og tóbaksversluninni og sneru að lýðheilsu. Þau málefni hafa hin síðari ár fallið undir efnahags- og viðskiptanefnd og sannarlega lögin um aukatekjur ríkissjóðs sem hér er líka verið að breyta. Einhvern tímann fyrr meir kunna einstaka áfengismál að hafa verið send til þeirrar allsherjarnefndar sem var í þinginu áður en allsherjar- og menntamálanefnd var og kannski hafa menn af einhverri gamalli venju sent það áfram eftir þeirri leið, en eftir þeirri skipan sem við höfum núna miðast hún nokkuð við skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þetta mál væri flutt af fjármála- og efnahagsráðherra væri það stjórnarfrumvarp og færi til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og það mundi enginn ræða það neitt hér.

Ég held að hér sé verið að framlengja einhverja venju sem varð til við allt annað skipulag. Ég hygg að þrír af þeim fjórum lagabálkum sem hér er verið að breyta falli undir efnahags- og viðskiptanefnd.

Eru verslunarfrelsi og röksemdunum fyrir verslunarfrelsi engin takmörk sett? Jú, auðvitað eru þeim takmörk sett. Mikilvægustu takmörkunina setti 1. flutningsmaður málsins við upphaf umræðunnar, að það megi ekki leiða til neinnar aukningar á unglingadrykkju. Það held ég að séu býsna skýr mörk sem flutningsmaðurinn hefur dregið um það að verslunarfrelsið megi ekki ganga yfir þau mörk.