144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði svo sem þá yfirlýsingu líka og vissulega gladdi hún mig. Sé henni fylgt eftir og standi heill hugur að baki er ég sammála því sem kom fram í umræðunum áðan, viðfangsefnið er þá kannski ekki síst að fara í eins rækilega greiningu á því og kveðja til alla dómbærustu aðila sem við eigum aðgang að til að reyna að skera úr um það og fá fram líkurnar fyrir því að þessi breyting sé möguleg án þess að stórkostleg áhætta sé tekin á því að unglingadrykkja aukist. Örugglega á það eftir að bera meira á góma síðar í umræðunni.

Ég nefndi nokkrar vörur og tegundir sem alls konar takmarkanir gilda um til að þessi skinhelgi sé ekki vaðandi uppi í umræðunni, að þetta sé bara svart og hvítt, bara frjáls verslun með hlutina eða algerar takmarkanir og ríkiseinkasala. Þetta er nefnilega heilmikið litróf. (Forseti hringir.)

Nefnum bara eitt í viðbót, íbúðarhúsnæði. Við viljum ekki að hver sem er höndli með (Forseti hringir.) og geri sölu- og kaupsamninga um þessar mikilvægu eignir almennings þannig að það þurfa að vera löggiltir (Forseti hringir.) fasteignasalar. Þannig gæti ég lengi haldið áfram að lengja listann. Við setjum nefnilega (Forseti hringir.) ýmsar skorður við hinu svokallaða frelsi að þessu leyti.