144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skiptir mjög miklu máli og er grundvallaratriði í mínum huga að við hyggjum að neyslu unglinga. Mér finnst það skipta afskaplega miklu máli, en fullorðinn einstaklingur getur líka eyðilagt í sér lifrina og auðvitað erum við að hugsa og horfa til samfélagsins almennt.

Varðandi unglingana, unga fólkið, þá horfi ég til þeirra sem hafa verið að kynna sér þessi mál best, sem starfa við að skoða þessi mál, skoða tölfræðina og skoða áhrif lagaumhverfis og dreifingarmáta á neyslumynstrið. Þar vísa ég aftur í landlæknisembættið. Ég vísa í þessa norrænu samvinnu. Ég vísa í samtök sem hafa beitt sér sérstaklega í þessu. Ég vísa í fræðimenn sem hafa lagt sig í líma við að skoða þessi mál. Árni Guðmundsson, lektor við Háskóla Íslands, í þessum efnum hefur til dæmis beitt sér mjög í þessum málum og gegn áfengisauglýsingum. Hlustum á hvað þetta fólk segir. Allt þetta fólk er að vara við þessu. Allt þetta fólk.