144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt, það er svolítið skondið að það skuli í sömu setningunni rætt um áfengi sem hverja aðra neysluvöru en jafnframt er sett fram samlíking við skotvopn og tóbak, sem lúta allt öðrum lögmálum en aðrar vörur. Tóbakið er selt þannig að varnaðarorð eru á hverjum pakka um að það geti valdið dauða og geti valdið fósturskaða hjá þunguðum konum. Skotvopn eru almennt ekki til sölu í Hagkaupum að því er ég best veit og verður vonandi ekki. Bandaríkjamenn eru nú að súpa seyðið af því að hafa skotvopnin of aðgengileg.

Sama er um áfengið, alls staðar eru heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöldin að skoða með hvaða hætti hægt er að takmarka þann aðgang. (Forseti hringir.) En það er rétt sem fram hefur komið í umræðunni, þetta er lögleg vara, og þá er spurningin (Forseti hringir.) að feta hinn góða milliveg að hafa aðgengi að vörunni án þess að virkja grimmustu markaðslögmálin.