144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki ekki sjónarmið innflytjenda á áfengi. Þeir telja eflaust eitthvert hagræði fólgið í því fyrir sig að hafa það fyrirkomulag sem nú er við lýði. Ég er fyrst og fremst að horfa á málið út frá sjónarmiði neytenda, ég er að horfa á málið út frá lýðheilsusjónarmiðum, ég er að horfa á málið út frá skattpyngju landsmanna, sem mun verða af umtalsverðum fjármunum. Ég er að horfa á málið út frá neytendum að því leyti að áfengi verður dýrara, álagningin mun aukast. Ég get vísað í kannanir þar að lútandi, (VilÁ: Er það ekki gott?) og horfi til dæmis til þess sem gerðist með tóbakið.

Er það ekki gott? segir hv. þingmaður hér í frammíkalli. Nei. Ef við ætlum að hækka verð á áfengi þá gerum við það ekki með óhagræði. Við hækkum þá bara tolla og gjöld og þá er það hluti af markvissri lýðheilsu- og áfengisstefnu. En við gerum það ekki með því að reyna að finna og beina þessari sölu inn í óhagkvæmasta fyrirkomulag sem til er.