144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

breyting á reglugerð um línuívilnun.

[10:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að að mínu mati er þetta heiðursmannasamkomulag hvergi svikið. Í niðurstöðum nefndarinnar stendur, eins og hv. þingmaður kom inn á, að engar meiri háttar breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi úthlutana í potta á næsta fiskveiðiári heldur verði stefnt að því að leggja fram þingsályktunartillögu þar að lútandi á vorþingi á yfirstandandi þingi. Ég tel að þannig sé málið vaxið. Engin meiri háttar breyting hefur verið gerð.

Það er hins vegar kunnara en frá þurfi að segja að við höfum verið í stórkostlegum vandræðum með ýsu á undanförnum árum vegna tillagna Hafró um sífellt minnkandi ýsukvóta, en á sama tíma hefur sýnileiki og veiðanleiki ýsu á miðunum haldist uppi. Menn hafa átt í auknum erfiðleikum með að veiða þorsk og aðrar tegundir, sérstaklega þorsk, og forðast ýsu.

Allir aðilar utan línuívilnunar hafa á liðnum árum þurft að segja upp fólki, fækka fólki, og takast á við þennan vanda. Þegar við eftir þinglok í sumar fengum upplýsingar um það hvernig gengið hefði með skiptimarkað á síðasta ári kom í ljós að farið hafði verið fram úr. Grundvöllur íslensks fiskveiðistjórnarkerfis er að halda sig innan heildarákvörðunar um afla. Það er grundvallaratriði.

Þá var farið yfir það hvernig við gætum dreift ýsupottinum á sem sanngjarnastan hátt. Línuívilnunarbátar voru með um 2.100 tonn í sínum potti. Þeir veiddu 1.600, þ.e. eini hópurinn af öllum þeim sem stunda útgerð á Íslandi sem hafði frjálsan aðgang að ýsu í línuívilnuninni. Í tilraun okkar til þess að koma fram af jafnræði við alla (Forseti hringir.) var þetta gert svona.

Ég hef hins vegar lýst því yfir að við þurfum að skoða málið gaumgæfilega, hvort hægt sé að lina (Forseti hringir.) það högg sem þetta vissulega er fyrir hluta af útgerðinni með einhverjum hætti. (Forseti hringir.) Ég get ekki lofað því að það sé hægt vegna þess að grundvallarkerfið (Forseti hringir.) er að halda sig við heildarkvóta í landinu.