144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

breyting á reglugerð um línuívilnun.

[10:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Er það ekki meiri háttar breyting á kerfinu sem leiðir til þess á fyrstu dögum að vestur í Bolungarvík er 17 manns sagt upp og fleiri fyrirtæki í fleiri sveitarfélögum eru í sama farvatni og við munum sjá fjöldauppsagnir á næstunni út af þessu? Er það ekki meiri háttar breyting?

Virðulegi forseti. Við vissum af því að ýsupotturinn yrði skorinn niður. Það vissi hæstv. ráðherra líka. Hafró var búinn að undirbúa okkur undir það.

Og annað. Þorskkvóti hefur verið aukinn undanfarin ár en línuívilnun í þorski hefur ekki verið aukin í sama hlutfalli. Af hverju vill ráðherrann bara ráðast núna á ýsuna? Sá hluti er skorinn niður, sumir segja að það sé ekki þörf á því, en það er annar handleggur. En núna er þetta í fyrsta skipti gert. Síðastliðin fimm fiskveiðiár hefur þetta verið óbreytt í 2.100 tonnum.

Þess vegna, virðulegi forseti, kemur það eins og köld vatnsgusa á okkur að þetta skuli gert, miðað við það nefndarálit sem sett var fram og miðað við orð ráðherrans í nefndinni þegar við vorum að lagfæra þessi lög.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) vegna þess að hæstv. ráðherra talaði í þessari umræðu um hið góða samstarf (Forseti hringir.) og að reyna að ná meiri skilningi, að hér hefur (Forseti hringir.) verið stigið stórt skref til baka í þeirri viðleitni.