144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

breyting á reglugerð um línuívilnun.

[10:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera nokkuð stór orð (KLM: Þetta er stóraðgerð.) og verð að segja alveg eins og er að ef menn horfa á þetta með sanngjörnum hætti þá sjá þeir að ef sama hlutfall af ýsu væri í línuívilnuninni og þorski væri það um 400 tonn. Í dag eru það þó um 1.100 tonn, þ.e. línuívilnunarflokkurinn hefur tæplega þrisvar sinnum meiri aðgang að ýsu en allir aðrir. Það er auðvitað mjög dapurlegt að fyrirtæki segi upp fólki, en það hefur verið að gerast á undanförnum árum hjá öllum öðrum sem hafa ekki haft aðgang að ýsu. Það er einfaldlega þannig.

Við erum að leita allra leiða til þess að úthluta takmörkuðum ýsukvóta á sem sanngjarnastan hátt. Ég vona að við í þinginu getum áfram lagst yfir það sameiginlega og fjallað um hvernig úthlutun úr pottunum mun nýtast best í byggðalegu, félagslegu og atvinnulegu tilliti til framtíðar, alveg óháð þessu máli.