144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

línuívilnun.

[10:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil halda áfram að ræða um þá miklu skerðingu á línuívilnun sem framkvæmd var með reglugerð frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýlega. Ég held að hæstv. ráðherra geri sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Það er ekki bara eitthvert pennastrik að breyta þessu. Vægi línuívilnunar er mjög mismunandi eftir bátaflokkum og hvar í kerfinu hún er. Það er líka mjög mismunandi eftir landsvæðum.

Ég held að hæstv. ráðherra ætti að ræða við þá aðila sem þetta bitnar hvað harðast á. Þetta er mikil atvinnuröskun og byggðabrestir í sjávarplássum fyrir vestan og víða á landinu. Ég hlustaði á sjómann úr kjördæmi hæstv. ráðherra í morgun á sjó út af á Vestmannaeyjum þar sem allt var vaðandi í ýsu en hann þurfti að leigja af stórútgerðinni á uppsprengdu verði á 300 kr. kílóið. Það er engin hemja að fara fram í vor með breytingu á þessum lögum. Þetta var samþykkt á síðustu metrum þingsins. Engin umræða varð í nefnd eða við hagsmunaaðila um að það ætti að fara að hafa þennan félagslega pott í einni heild, að það yrði engin skipting á því hve mikið færi í byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðar, skel- eða rækjubætur. Menn gera ekki svona nema þeir standi við orð sín um að ekki verði hreyft við þessu fyrr en ný þingsályktunartillaga um tillögur í þessu efni fæst rædd í þinginu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli virkilega að þumbast við og gera ekkert í því að fjöldi starfa á Vestfjörðum og víðar eru í uppnámi út af þessari reglugerð, hvort hann geti ekki a.m.k. bakkað það mikið að hann gefi þessu máli þá umræðu sem það þarf í þinginu og að við skoðum það í þeirri þingsályktunartillögu sem hann mun væntanlega leggja fram.