144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

línuívilnun.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel að það verði enginn héraðsbrestur þó að dregið verði að ákveða skiptingu innan þessa félagslega potts fram eftir ári meðan menn skoða hvað hægt sé að gera með þeim aðilum sem þarna eiga í hlut.

Það er aftur á móti hætta á miklum byggðabresti á þessum svæðum í kjölfarið á því að svona ruddaleg reglugerð er lögð fram, þvert ofan í orð ráðherra frá því í vor. Ég held að ráðherra ætti virkilega að endurskoða þetta. Við vitum öll að veiðar á línu eru umhverfisvænar og línuívilnun hefur skipt byggðarlög fyrir vestan og á fleiri stöðum gífurlega miklu máli, það hversu atvinnuskapandi hún er og hefur fært mikla vinnu inn á þessu svæði. Ætlar ráðherra ekkert að gera, ætlar hann ekki að bregðast við fyrst hann hefur þennan skilning? Á ekki að koma með einhverjar mótvægisaðgerðir strax til að bregðast við þessu? Á að leggja þarna niður fleiri tugi starfa (Forseti hringir.) eins og ekkert sé án þess að brugðist sé við? Þetta eru brothættar byggðir (Forseti hringir.) og ráðherra er ráðherra byggðamála og hann hlýtur að hafa uppi í erminni einhverjar róttækar mótvægisaðgerðir strax.