144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

línuívilnun.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að við þurfum vissulega að horfa til framtíðarinnar með ábyrgum hætti. Ég vil gjarnan varpa því hér til þingmanna, ekki síst þingmanna atvinnuveganefndar, að vera tilbúnir til slíks samstarfs. Ég vil líka undirstrika það sem ég sagði í upphafi þessarar umræðu að að mínu mati er það heiðursmannasamkomulag sem við gerðum í vor á engan hátt brotið. Hér er reynt að fara með eins sanngjörnum hætti um og hægt er.

Ef hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur ekki haft áhyggjur af þeim tugum manna sem hafa misst vinnuna vegna þess að þeir hafa ekki haft aðgang að ýsu á liðnum árum en hefur þessar gríðarlegu áhyggjur núna vil ég spyrja hv. þingmann hvort við þurfum ekki að láta eitt yfir alla ganga. Hér reynum við að gera þetta með eins sanngjörnum hætti og hægt er, en eins og ég sagði í svari til hv. þm. Kristjáns L. Möllers hefur það verið til skoðunar í ráðuneytinu hvort hægt sé að lina þetta högg fyrir þennan hluta á einhvern hátt, af því að ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er högg. En það er sama höggið og hefur (Forseti hringir.) gengið yfir alla aðra. Við þurfum að horfa til framtíðar og til ástands stofnsins.