144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

ummæli ráðherra í Kastljósi.

[11:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það vera sérstakt af frétta- og blaðamönnum að gera einstaka starfsmenn ráðuneyta ábyrga fyrir því hvernig lögin í landinu eru. Ráðherrar bera ábyrgð á starfsemi ráðuneytanna, á því að framfylgja lögunum. Það er þá annars vegar við framkvæmdarvaldið, ráðherrana, og hins vegar við löggjafarvaldið að sakast ef menn telja að lögin séu ekki rétt og að ekki sé rétt gefið. Þess vegna er miklu eðlilegra að taka þessa umræðu við okkur sem erum hér í þessum sal. Það er mín einlæga skoðun að þannig eigi það að vera.

Að sjálfsögðu eru athafnir einstaklinga í samfélaginu aldrei yfir athugasemdir hafnar og skoðun. Það hlýtur einnig að gilda um fjölmiðlamenn.

Í ljósi þessa, þar sem hv. þingmaður vitnaði til orða minna í viðtölum í gær eða fyrradag, þá gekk ég nú bara á undan í því viðtali og sagði að væru menn til dæmis að velkjast í vafa um að ég hefði fortíð eða tengsl við mjólkuriðnaðinn í landinu þá hefði ég verið kúabóndi ásamt systkinum mínum í nokkur ár og hefði starfað sem dýralæknir í þjónustu kúabænda sem og annarra dýraeigenda á Suðurlandi í 19 ár. Því væri ljóst að ég hefði tengsl við þá atvinnugrein. Mér finnst það bara eðlilegt, ef menn ætla út á þær brautir að gera athugasemdir við starfsemi ráðuneyta og þar með framgöngu einstakra starfsmanna, og velta upp fortíð þeirra áratugi aftur í tímann, hvar þeir hafi verið, að fjölmiðlamenn geri slíkt hið sama.