144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa sérstöku umræðu. Í aðdraganda hennar sendi hv. þingmaður nokkrar spurningar til ráðuneytisins sem ég ætla að reyna að svara. Áður en ég byrja á því vil ég minna á — af því að það er eins og þessi umræða fari fram í einhverju tómarúmi um að allt sé óbreytt og verði óbreytt — að búvörusamningar munu renna sitt skeið á þessu kjörtímabili og í aðdraganda þeirra hef ég óskað eftir skoðun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á því kerfi sem hefur verið við lýði um tíu ára skeið. Ég vænti þess að niðurstaðan úr því komi núna í þessum mánuði.

En hvað er svona sérstakt við mjólk að það þurfi sérstaka opinbera verðlagningu á henni og sérstakt leyfi til að sniðganga samkeppnissjónarmið í sölu á henni eins og hv. þingmaður kom inn á?

Þetta er kannski höfuðspurning og hefði átt að vera í forgrunni þeirrar umræðu sem nú stendur yfir í samfélaginu. Í fyrsta lagi er eðli vörunnar sérstakt, hér er um að ræða viðkvæma lífræna vöru sem fellur til daglega alla 365 daga ársins, burt séð frá því hvernig árar eða hver eftirspurn er eftir henni. Þetta eru ekki vélar, það eru kýr, lifandi skepnur, sem framleiða hana. Í öðru lagi er um að ræða forgengilega vöru sem er vandmeðfarin og þarf dýrt og viðamikið flutningakerfi um allt land til að safna mjólkinni frá 650 bændum. Það er farið 90 þúsund sinnum heim á bæi til að ná í mjólk á hverju ári. Í þriðja lagi tekur nú um þrjú ár, eða í það minnsta tvö og hálft ár, að ala upp mjólkurkú sem síðan endist ekki nema í nokkur ár, að hámarki í áratug þó að einstaka fari yfir það.

Þessi atriði gera að verkum að óheyrilegar framleiðslu- og verðsveiflur geta orðið í mjólkuriðnaði eins og reynslan sýnir um allan heim. Þess vegna eru víða sérlög eins og hv. þingmaður kom inn á. Slíkar sveiflur geta ekki aðeins hitt neytendur illa fyrir heldur bændurna ekki síður. Því er reyndin orðin sú að víðast hvar í okkar heimshluta er mjólkuriðnaðurinn undir opinberri verðlagningu með einhverjum hætti og/eða framleiðslustýringu með einhverjum hætti. Kerfin eru mörg og ólík en markmið þeirra eru í meginatriðum þau sömu.

Við þetta má svo bæta að mjólk er víðast talin til nauðsynjavöru sem sé mikilvæg, sérstaklega fyrir ungar og uppvaxandi kynslóðir og því hluti af fæðu- og matvælaöryggi þjóða.

Hv. þingmaður spurði af hverju MS þurfi sérstakar undanþágur frá samkeppnislögum. Ég vil byrja á að benda hv. þingmanni á að allar starfandi afurðastöðvar í mjólkuriðnaði geta nýtt sér þessi heimildarákvæði búvörulaga, ekki einungis MS. Það stóð til um síðustu aldamót að mjólkuriðnaðurinn færi undir frjálsa samkeppni, en kannski latti umræðan um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og fákeppni á dagvörumarkaði, sem áberandi var upp úr aldamótunum, til þess að þetta skref yrði stigið. Þá voru forráðamenn smáverslana um allt land uggandi um sinn hag og framtíð þeirra ef af þessum áformum yrði. Ég gæti spurt hv. þingmann: Hvernig hefur gengið á þeim markaði?

Því var horfið að því ráði, að mér skilst, að setja í búvörulög ákvæði um heimild til samstarfs eða sameiningar til að skapa þær aðstæður að hægt væri að minnka fjárfestingarþörf í greininni, sérhæfa afurðastöðvar og lækka þar með vinnslu- og dreifingarkostnað mjólkur. Tilgangurinn var skýr, það átti að lækka kostnað og taka af öll tvímæli um að árangri af fyrirhugaðri hagræðingu skyldi skilað til neytenda og bænda. Á því sem liggur fyrir nú þegar í ráðuneytinu, þá vitna ég aftur til skýrslu Hagfræðistofnunar, sýnist mér að tilgangi laganna frá 2004 hafi verið náð. Við væntum þess að úttekt Hagfræðistofnunar HÍ, á árangri í starfsemi mjólkuriðnaðar undir þeim lögum sem starfað hefur verið eftir síðasta áratuginn, muni skýra það enn frekar hvernig tekist hefur til út frá sjónarhóli neytenda og þá getum við tekið þessa umræðu aftur.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort ekki sé kominn tími til að afnema þær. Þá svara ég því þannig til, eins og ég hóf ræðu mína, að ég hyggst sem landbúnaðarráðherra skipa nefnd þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu til að yfirfara ákvarðanir frá 2004. Það er eðlilegt. Löggjafinn setti þessi lög. Þingið tók þær og það er Alþingis að meta þær í ljósi reynslunnar. Ég vona að nefndin muni svara spurningunni og ég vona að hún skyggnist í allar áttir og meti það meðal annars hvort og hvernig fyrirkomulag í mjólkuriðnaði í öðrum löndum gæti gagnast okkar aðstæðum á Íslandi til framtíðar. Hættum að horfa í baksýnisspegilinn.

Ég geng með opnum hug til skoðunar á þessum málum og vil hvorki festast í fortíðinni né heldur ana út í einhverja ófæru að óskoðuðu máli.

Að lokum: Á ekki samkeppni í framleiðslu, verðlagningu og sölu erindi inn á þetta svið matvælaiðnaðar eins og önnur? Alþingi svaraði þessari spurningu neitandi árið 2004 er varðar framleiðslu og verðlagningu á hluta mjólkuriðnaðarins svo að það sé nú líka tekið fram að það eru ekki allar vörur á markaði. Við skulum sjá hver niðurstaðan verður. Ég vil þó nefna að ég styð ekki brot á samkeppnislögum, hvorki í mjólkuriðnaði né á nokkru öðru sviði, en ég vil ítreka að kerfið er í skoðun og komi í ljós að úr þurfi að bæta mun þingið og ráðuneytið og sá er hér stendur væntanlega taka á því.