144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda þessarar sérstöku umræðu og fagna henni. Það er mikilvægt að við komumst í að ræða efnislega um þetta stóra mál.

Ég vil í upphafi fagna þeirri yfirlýsingu landbúnaðarráðherra sem hér var flutt um að hann hefði falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á þeim árangri sem náðst hefur. Ég vil meina að árangur hafi verið verulegur, sem sýnir sig meðal annars í því að raunlækkun hefur orðið á verði mjólkurvara og raunhækkun á afurðaverði til bænda. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég vil líka minna á að mjólkuriðnaður er aðeins að hluta til undanþeginn samkeppnislögum. Víða er verið að rannsaka mjólkuriðnað eins og allan annan samkeppnisrekstur í heiminum. Í því sambandi er rétt að rifja hér upp að fyrir skemmstu sektuðu samkeppnisyfirvöld í Finnlandi þar lítinn mjólkurframleiðanda fyrir að undirbjóða þann stóra, þ.e. finnska samvinnufélag bænda var sektað í Finnlandi fyrir að undirbjóða Arla sem er miklu stærri risi á mjólkurmarkaði, þannig að þetta getur verið á báða bóga.

Ég velti fyrir mér þeim rannsóknarspurningum sem landbúnaðarráðherra leggur fyrir Hagfræðistofnun því að þær skipta verulega miklu máli. Það er mikið atriði að komast að því hvort þessi aðferð hefur skilað árangri umfram aðrar. Við getum nefnilega borið hana saman við aðrar aðferðir um verðlagningu á búvörum. Ég vil nefna afkomu kartöflubænda og verðþróun á undanförnum árum.

Ég vil ekki heldur gleyma því að undanþágan sem við fjöllum svo oft um er líka grunnur að þeirri byggðastefnu sem við höfum nú. Ég velti til dæmis fyrir mér hvort rekin væri mjólkurvinnsla í Búðardal eða á Egilsstöðum í dag ef ekki væri fyrir þessar heimildir til skipulagningar. Ég vil líka minna á að bændur hafa jafnstöðu gagnvart því fyrirtæki að framleiða og selja mjólk. Ég vil einnig minna á það að mjólkuriðnaðinum er skylt að afhenda þessa vöru á sama verði um allt land.

Enginn bókstafur, hvorki ákvæði í búvörulögum né öðrum lögum, er svo heilagur að það megi ekki breyta eða kúvenda. Ég hvet (Forseti hringir.) til almennrar þátttöku og samstöðu um það.