144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Fáein orð um dreifikerfið. Hæstv. landbúnaðarráðherra nefndi að það þyrfti einn aðila til að tryggja jafnan aðgang bænda að dreifingu og aðgangi að mjólkurbúum. Það er allt gott og blessað en það sem liggur dálítið ljóst fyrir hérna, finnst mér að minnsta kosti, er að framleiðslan þarf greinilega að kaupa af þessu dreifikerfi. Ef það þarf opinbera framleiðslu til að tryggja fæðuöryggi og afkomu hráframleiðslunnar eiga bara allir að geta gengið jafnt að því dreifikerfi. Til þess að það sé ef það er opið dreifikerfi þarf greinilega að vera opið aðgengi að upplýsingum um opinbera framleiðslu líka ef hún kaupir af þessu dreifikerfi. Ástæðan fyrir því er einfaldlega spillingarmöguleikar. Það er það sem bent var á í umfjöllun Kastljóss.

Það má benda á áhugaverðan samanburð við þetta og grunnnet samskipta þar sem ekki á að vera hægt að skipta sölunni á milli grunnkerfis Símans og þjónustunnar eða sölunnar. Það virðist vera ósatt eins og sagan hefur leitt í ljós og af hverju er ekki hægt að gera svipað þar? Það hefur verið talað um allan fisk á markað. Mjög svipað dreifikerfi, mjög svipuð hugmynd.

Nú er mjög kaldhæðnislegt að næsta mál á dagskrá snýst einmitt um frjálsa verslun áfengis, verslun með áfengi og tóbak, smásölu áfengis. Er það ekki dálítið viðeigandi svipað mál og við erum að ræða hérna? Hvernig kemur það til með að hljóma frá öðrum stjórnarflokknum?

Ég ítreka bara eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson benti á, ef frjáls verslun getur ekki verið hagkvæmari, hvað þá? Ég vil bæta við að þar á bak við er ákveðinn kostnaður og það er þessi spilling sem við erum að glíma við. Það er það sem við eigum að einbeita okkur að því að útrýma.