144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka meira og minna málefnalega umræðu fyrir utan hv. þm. Helga Hjörvar sem kom hér upp með sitt hefðbundna „að skjóta og kannski spyrja seinna en jafnvel sleppa því“. Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að spyrja fyrst. Ef það þarf að skjóta, þá er skotið, annars bregðast menn við með öðrum hætti.

Bændur sjálfir, 650 bændur, ákváðu út frá samstöðu, samstarfi og samvinnu að búa til það kerfi að allir sætu við sama borð. Má halda því fram að þeir hafi hafnað samkeppni frá því að einn stór aðili sem byggi við hliðina á mjólkurstöð gæti selt sína vöru ódýrara vegna þess að flutningskostnaðurinn er lægri? Já, það má halda því fram. Þeir bjuggu til kerfi þar sem allir sátu við sama borð, allir, hvar sem þeir búa á landinu. Það var mikil ákvörðun hjá bændum.

Hagræðing í mjólkuriðnaði á síðustu tíu árum hefur kostað mikið, úr 17 stöðum niður í fimm. Það er margt fólk sem hefur misst vinnuna og margir staðir orðið fyrir miklu höggi. Hvernig er það gert? Jú, með því að tryggja að atvinnan sé hringinn í kringum landið hjá þeim smáu sem geta ekki keppt við hina stóru.

Í McKinsey-skýrslunni er meðal annars farið yfir stöðu mjólkuriðnaðarins. Þar eru innviðir sterkir og vaxtarmöguleikar miklir, ég er sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Þar er líka fjallað um verslunina. Hún er sögð of stór, hún þarf að minnka. Stórverslunin skilar hagnaði upp á milljarða, en vegna opinberrar verðlagningar er Mjólkursamsölunni skammtað að skila af sér 200 milljónum, 230 ef henni gengur vel.

Milljarðar hjá öðrum aðilanum á samkeppnismarkaði. Hjá hinum, ef þeim gengur vel, 200 milljónir. Er samkeppni alltaf hin besta? Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar.

Í fjarskiptum, í ljósleiðarakerfinu (Forseti hringir.) á Íslandi, er búið að leggja tvo eða þrjá ljósleiðara á höfuðborgarsvæðinu fyrir 22 milljarða. Það er 10 milljarða umframfjárfesting. Hverjir borga það? Neytendur. (Forseti hringir.) Fjarskiptafyrirtækin segja síðan úti í dreifbýlinu: Við tökum ekki þátt í því að byggja upp ljósleiðara á markaðslegum forsendum. (Forseti hringir.) Þar er engin samkeppni. Hver á að gera það? Er samkeppni alltaf best? (Forseti hringir.) Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar og gera það málefnalega.