144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

framhald umræðu um frumvarp um verslun með áfengi.

[11:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú fer að hefjast framhald á umræðu sem hófst hér í gær. Þá óskaði ég sérstaklega eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði við umræðuna. Málið snýr að lýðheilsumálum og heilbrigðismálum og við umræðuna var vísað til stefnumörkunar sem ríkisstjórnin, og þar með hæstv. heilbrigðisráðherra, hefur samþykkt. Við teljum, mörg hver, að það frumvarp sem er hér til umræðu stríði beinlínis gegn þeim sjónarmiðum sem þar er að finna.

Ég spyr hæstv. forseta þingsins hvort hann vilji beita sér fyrir því að hæstv. heilbrigðisráðherra verði við þessa umræðu og ef hann á ekki kost á því verði henni frestað og fram haldið þegar hæstv. ráðherra getur verið hér.