144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

framhald umræðu um frumvarp um verslun með áfengi.

[11:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá ósk sem kom fram í gær líka. Ekki var þá orðið við henni. Ég tel það afar mikilvægt. Nú berast okkur þingmönnum fjölmargir póstar frá þeim sem hafa miklar áhyggjur af sérstaklega forvarnaþættinum í þessu máli og að hans sé ekki getið með fullnægjandi hætti. Fólk hefur almennt áhyggjur af unga fólkinu í tengslum við það sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Það hefði líka verið áhugavert að hafa hæstv. fjármálaráðherra hér og heyra hans skoðun á því að hér sé verið að taka ÁTVR sem hefur skilað okkur dágóðum fjárhæðum í ríkiskassann og einkavæða hana.

Að auki tókumst við í gær á um hvert ætti að vísa þessu máli. Það er líka afar mikilvægt að fá skoðanir bæði hæstv. fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra á því hvort þeir séu því sammála að þetta eigi heima í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég tel það alls ekki, mér finnst það ekki rétti vettvangurinn og tek undir með þeim þingmönnum sem hafa viljað vísa málinu í aðrar nefndir. Eins og ég segi (Forseti hringir.) er sérstaklega lýðheilsuþátturinn afar mikilvægur og við þurfum (Forseti hringir.) að fá álit heilbrigðisráðherra á málinu.