144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[11:57]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Verði frumvarpið að lögum mun sala á áfengi færast frá ÁTVR til matvöruverslana. Sambærilegt frumvarp hefur sex sinnum áður komið fram en ekki hlotið brautargengi þingheims. Nú er þetta frumvarp endurflutt af 13 hv. þingmönnum úr fjórum þingflokkum.

1. umr. hófst í gær og þá lýstu nokkrir hv. þingmenn undrun sinni yfir því að máli sem fjallar að uppistöðu til um viðskipta- og velferðarmál sé vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Þeir færðu rök fyrir því að málið gengi til velferðarnefndar þar sem það varðar lýðheilsumál eða þá til efnahags- og viðskiptanefndar en sú nefnd hefur yfirleitt fjallað um lögin sem nú gilda. Ég get tekið undir það að málið á betur heima hjá annarri hvorri þessara nefnda og tek undir þau sjónarmið sem þessir hv. þingmenn hafa lýst.

Virðulegi forseti. Ef gerð væri könnun meðal landsmanna núna og spurt: Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum? — þá mundu kannski margir svara því játandi. En málið er ekki svona einfalt. Spurningin ætti nefnilega að vera eftirfarandi: Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum ef það leiðir til aukningar á áfengisneyslu og einkum hjá unglingum? Hverju svara menn þá?

Það er samhljóma niðurstaða fjölda alþjóðlegra rannsókna að þegar opnað er á sölu áfengis í matvöruverslunum eykst áfengisneysla og ekki síst hjá unglingum. Vart eru forsendur til að ætla að hér verði niðurstaðan eitthvað jákvæðari. Mikilvægt er að fólk spyrji sig hvort sala áfengis í matvöruverslunum sé skref fram á við þegar kemur að hagsmunum barna og unglinga.

Samkvæmt gögnum frá ESOAD er staðan á Íslandi góð í alþjóðlegum samanburði. Íslensk ungmenni neyta í dag minna áfengis en flest ungmenni í Evrópu gera. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem ríkið sér einnig um áfengissölu, er drykkja ungmenna einnig lítil en í Danmörku, þar sem áfengi er selt í matvörubúðum, er neysla ungmenna með því hæsta sem gerist í Evrópu. Varla er þetta tilviljun.

Við getum líka lært af reynslu Svía. Þeir hættu að selja miðlungssterkan bjór í matvöruverslunum árið 1977. Áfengisneysla dróst þá saman um 8%. Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkuðu næstu sex ár, sérstaklega hjá ungmennum. Umferðarslysum fækkaði um 15% meðal 10–19 ára eftir 1977.

Árið 2010 var gerð skýrsla um mögulegar afleiðingar þess að selja áfengi í sænskum matvöruverslunum svipað og hér er verið að fjalla um. Þá var áætlað að áfengisneysla mundi aukast um 37% með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir lýðheilsu, svo sem aukinni dánartíðni, fjölgun ofbeldisbrota og veikindadaga.

Svipaða reynslu má læra af Finnum. Árið 1969 hófst þar sala á miðlungssterkum bjór í 17.400 matvörubúðum. Afleiðingin var sú að sala á vínanda jókst um 46%. Allir hópar juku neyslu sína.

Samanburðarskýrsla The Community Guide frá 2011, sem byggir á 17 skýrslum, meðal annars frá Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð og Finnlandi, gefur til kynna að með einkavæðingu áfengissölu verði aukning á neyslu 44% að miðgildi. Allar þessar alþjóðlegu rannsóknir byggja á raunverulegri reynslu og því er erfitt að líta fram hjá þeim.

Á heimasíðu landlæknisembættisins segir jafnframt að allar alþjóðlegar rannsóknir bendi til þess að afnám á einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur sýna rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála. Þar er minnt á að aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni ofbeldis og annarra samfélagslegra vandamála sem geta tvöfaldað samfélagslegan kostnað okkar í dag vegna áfengisneyslu.

Með frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð og þar á bls. 10 er fjallað um áhrif á neyslu. Þar er eftirfarandi fullyrðing sett fram algerlega órökstudd. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.“

Þetta rímar bara alls ekki við þær fjölmörgu rannsóknir sem ég hef séð og landlæknir vísar til og aðrir styðjast við. Það er hafið yfir vafa að nái frumvarpið fram mun það leiða til aukins aðgengis, aukinnar neyslu, og það varanlega. Fyrir mitt leyti er það næg ástæða til að taka afstöðu gegn frumvarpinu.

Kannski eru einhverjir sem geta sætt sig við aukna áfengisneyslu og lakari lýðheilsu í landinu ef eitthvað annað kemur í staðinn, einhver ávinningur sem er mikilvægur til mótvægis. Hagsmunir neytenda, hverjir eru þeir? Þeir felast í því að geta nálgast gott úrval af áfengi á góðu verði en er það eitthvert vandamál í dag? Þjónusta ÁTVR fær góða dóma í könnunum, varla lakari dóma en matvörubúðir fá, enda er úrvalið í ÁTVR býsna gott, sérstaklega í stóru vínbúðunum. Vel mætti bæta úrval á smærri stöðum úti á landi. Sums staðar vantar þar útsölustaði, en hins vegar má nálgast þetta og leysa með vefverslun og heimsendingu. Það er alger óþarfi að leysa málið með því að setja vín í allar 112 matvöruverslanir landsins.

En verðið, hvað með það? Mun það lækka ef vín fer í matvörubúðir? Þó skattar og gjöld séu vissulega mikil á áfengi þá er álagning ÁTVR ekki nema 12–18% og það er verulega lægra en matvöruverslun gæti sætt sig við í álagningu. Þetta styður frétt í Morgunblaðinu 2. október þar sem sagt var frá því að Hagkaup seldi eina gerð af áfengislausu hvítvíni á 1.300 kr. tæpar en sama flaska kostaði 870 kr. tæpar í ÁTVR. Út frá þessu má reikna út að álagning Hagkaupa hafi verið hátt í 80% en ekki 18% eins og lögbundið er hjá ÁTVR. Það er því erfitt að sýna fram á að frumvarpið sé rakin leið til að lækka verð til neytenda.

En það er ljóst að hagsmunir verslunar af frumvarpinu eru gríðarlegir. Hagar, Samkaup og Kaupás, sem ráða samanlagt 90% af matvörumarkaði, mundu að sjálfsögðu fá meginávinninginn af þessu frumvarpi. Árið 2013 seldi ÁTVR áfengi fyrir 18 milljarða og framlegð af þeirri sölu var 2,6 milljarðar. Þetta eru verulegir peningar og það er mikið í húfi.

Virðulegi forseti. Áfengi er engin venjuleg vara. Áfengi er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Áfengi veldur fíkn, það er orsakaþáttur í slysum, alvarlegum sjúkdómum og líkamsárásum. Fjöldi alþjóðlegra rannsókna staðfesta, svo að hafið er yfir vafa, að ef áfengi er selt í matvöruverslunum leiðir það til verulega aukinnar neyslu og lýðheilsuvandamála af þeim sökum.

Ég er að sjálfsögðu fylgjandi verslunarfrelsi og ég er andvígur því að ríkið vasist í verkefnum sem einkaaðilar geta leyst betur af hendi. Það er meginsjónarmið sem ber að fylgja. En það ber ekki að fórna öllu fyrir þetta meginsjónarmið, síst af öllum þeim árangri sem hér hefur náðst í því að draga úr áfengisneyslu unglinga. Ég vil því hvetja hv. þingmenn til að kynna sér þessar alþjóðlegu rannsóknir gaumgæfilega. Við höfum hér tækifæri til að læra af dýrkeyptum mistökum annarra þjóða og við þurfum ekki að endurtaka þau.