144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að forvarnir vegi þungt í þessum mikla árangri. Það stemmir hins vegar ekki að takmarkað aðgengi hafi áhrif vegna þess að aðgengi hefur verið að aukast. Vínbúðir eru opnar lengur en áður, til dæmis á laugardögum til kl. 8 í Skeifunni og mun víðar, þannig að það stemmir ekki. Það er meðal annars þess vegna sem ég hef ekki mikla trú á því að aðgangsstjórnun sé rétta tækið til að takast á við vandamálið. En kannski fer ég meira út í það í ræðu minni á eftir.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann líti ekki á neyslumynstur sem einn af höfuðþáttunum þegar kemur að neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu. Væntanlega erum við ekki bara að reyna að takmarka áfengisneyslu vegna þess að við viljum stjórna lífi fólks heldur vegna þess að við erum að reyna að takmarka neikvæðar afleiðingar hennar. Það er þess vegna sem mér finnst að þungamiðjan eigi að vera á neikvæðu afleiðingunum (Forseti hringir.) og neikvæðar afleiðingar eru fyrst og fremst afleiðingar unglingadrykkju. Er hv. þingmaður sammála mér í því að unglingadrykkjan og neyslumynstrið séu (Forseti hringir.) höfuðþættir í takmörkun á neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu?