144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:08]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefur aðgengi ekki aukist undanfarin ár, opnunartími lengst og annað slíkt? Aðgengi fullorðinna og þeirra sem eru orðnir tvítugir hefur vissulega aukist en ekki unglinga. Það væri gríðarleg bylting ef vín væri komið í matvöruverslanir, stæði þar allan daginn. Rýrnun getur orðið á lager í verslunum, ungt fólk afgreiðir í þessum verslunum og lagt er til í frumvarpinu að 18 ára fólk afgreiði vínið. Hvað á það að segja ef 19 ára bekkjarbróðir eða bekkjarsystir kemur og segir: Ég er orðin tvítug, viltu afgreiða mig? Og allt þar fram eftir götunum. Þetta hefur bara sýnt sig í reynslu annarra þjóða. Við erum ekkert að ímynda okkur hlutina. Reynslan annars staðar sýnir að unglingadrykkja eykst verulega þegar vín fer í matvöruverslanir.

Neyslumynstur skiptir miklu máli en þetta gerist þannig að neysla í öllum hópum eykst þegar vín fer í matvöruverslanir samkvæmt þessum skýrslum sem ég veit að hv. þingmaður mun kynna sér mjög vel.