144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það væri synd að segja að þetta mál hefði ekki haft áhrif á mig frá því það fór í gang, síðan hv. þm. Vilhjálmur Árnason ákvað að leggja það fyrir í þingið. Áður en ég byrja ræðu mína hér í stólnum langar mig að fá að lesa úr bók sem er mér mjög hugleikin og heitir Gæfuspor eftir heimspekinginn Gunnar Hersvein. Þar fjallar hann um föruneyti barnsins, með leyfi forseta:

„Bernskan er ævintýri — og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm og þarfnast gætni og virðingar. Barnið þarf föruneyti, ráð og leiðbeiningar til að geta metið aðstæður og tekið gifturíkar ákvarðanir. Fylgdarfólk þess þarf því að taka hlutverk sitt alvarlega svo það týnist ekki eða missi vonina í aðgangshörðum heimi. Voðinn er vís þegar fylgdin sofnar á verðinum. Þá festir tíðarandinn brennandi auga sitt á barninu.“

Síðar í sama kafla segir:

„Hugur barnsins er berskjaldaður og inn í hann smjúga jafnt sóma- sem sómalaus viðhorf og hegðun. Föruneyti barnsins ber að skera úr um æskileg og óæskileg áhrif. Annars sinnir það ekki því hlutverki sínu að vernda og efla.“

Og aðeins síðar:

„Samábyrgð varpar ljósi á hversu öflugt föruneyti barnsins getur verið. Í því eru ekki aðeins vinir og vandamenn heldur aðrir samstarfsmenn og stofnanir. Stjórnvöld sem búa fjölskyldunni markvisst betra umhverfi eru í föruneyti barnsins […] Stefna sem er hliðholl fjölskyldunni styrkir barnið.“

Síðar í kaflanum segir, með leyfi forseta:

„Sjálfsmyndin mótast mjög á unglingsárunum, á veginum að heiman máta unglingar sig við hegðun, áhugamál, hugmyndir, persónur og útlit. Sölumenn kasta netum sínum og sleppa ekki af þeim augunum. Föruneytið má alls ekki sofna á verðinum þegar unglingurinn fer út fyrir garðinn því þá fyrst verður hann fyrir áreitum úr öllum áttum.“

Ég ætla að halda áfram að vitna í þann góða mann, Gunnar Hersvein. Hann skrifaði aðra bók sem heitir Orðspor, gildin í samfélaginu, og er vert að vitna í hana. Hann segir:

„Fólk í stjórnmálum sem er valið á þing eða í sveitarstjórnir er ekki byltingarfólk. Það hlúir að og eflir þau megingildi sem samfélagið er reist á: jafngildi, virðingu og samábyrgð.

Miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem starfa í stjórnmálum […] Þau sem gera stjórnmál að vettvangi starfs síns þurfa að gera sér grein fyrir því hvaða þætti þarf að efla í samfélaginu og hverjum að draga úr […] Hugtakið almannaheill er mælikvarðinn í stjórnmálum. „Er viðmið tiltekinnar ákvörðunar, frumvarps eða laga hagsmunir almennings?“ er spurning sem ævinlega er efst á blaði í stjórnmálum.

Hvað er best fyrir land og þjóð? Vandasamt getur reynst að finna svarið en krafan er að ákvörðun sé tekin af heilindum út frá því sem best er vitað hverju sinni eða líklegt þykir.“

Síðan þetta mál komst í brennidepil hef ég verið að velta því fyrir mér hvort þetta frumvarp sé þess eðlis að það auki hag og heill Íslendinga, almennings í landinu. Ég var spurður að því í ágústmánuði, af blaði á Suðurnesjum, hvort ég væri fylgjandi þessu máli. Ég svaraði: Já, ég er fylgjandi því að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég held að ég hafi hlaupið á mig þar, ekki síst þegar ég fer að velta því fyrir mér hvað um er að ræða. Ég hugsa þetta ekki síst út frá því að ég er sjálfur óvirkur alkóhólisti og hef fengið að upplifa þær hörmungar sem fylgja því að vera í þeirri stöðu, hvað það gerði mér og hvað það gerði fjölskyldu minni. Ég held hreinlega að það sé algert óráð að fara út í þetta. Þrátt fyrir að ég sé frekar frjálslyndur maður og vilji frjálsa samkeppni, vilji byggja upp samfélag sem byggist á samkeppni og samheldni og samhug, þá held ég að þetta mál sé þess eðlis að það verði að horfa á það öðrum augum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kynnti í maí skýrslu um áhrif áfengisneyslu á heilsufar 194 þjóða heimsins. Þar kemur fram að 3,3 milljónir manna létu lífið árið 2012 vegna afleiðinga áfengisneyslu og það eru tæplega 6% allra dauðsfalla í heiminum. Og skaðleg áfengisneysla er orsakaþáttur fleiri en 200 sjúkdóma. Í heild má rekja rúmlega 5% allra sjúkdóma og slysa í heiminum til áfengis. Orsakasamband er milli skaðlegrar áfengisdrykkju og fjölmargra geðraskana og athyglisvandamála auk annarra sjúkdóma og áverka vegna slysa, við þurfum ekki að láta segja okkur það, við getum sagt okkur það sjálf.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason, sem ég hef miklar mætur á, veit líka sem fyrrverandi lögreglumaður — og hefur ábyggilega komið margoft að því — um afleiðingar áfengisneyslu. Ég vil samt þakka hv. þingmanni fyrir að koma fram með þetta mál því að það opnar umræðuna. Akkúrat þetta mál opnaði augu mín á ný. Hvað erum við að tala um hérna?

Hægt er að sjá það á heimasíðu SÁÁ að líkur eru á því að 22% íslenskra karlmanna verði áfengisvanda að bráð og 10% kvenna. Þetta er gríðarlegur fjöldi sem verður þessum — hvað á maður að kalla það? — vágesti að bráð, þessu böli. Það er nú samt þannig að sumir geta alveg farið með áfengi. Einhvers staðar er sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. En það er líka annað orðtak sem segir að öl sé böl og ég hef kynnst því sjálfur af eigin raun hvað það er og hvernig það getur farið með fólk, og ekki bara ég heldur fleiri meðlimir í minni fjölskyldu.

Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í rúma tvo mánuði er ég algerlega kominn á þá skoðun að við eigum ekki að gera þetta. Mér finnst allt í lagi að velta því fyrir sér hvort aðrir geti selt áfengi en þá í sérbúðum. Eins og hefur komið fram hjá fjölmörgum sem hafa rætt þetta þá er þetta aukið aðgengi, áfengi verður miklu sýnilegra í öllum búðum. Þið vitið bara sjálf þegar þið farið með börnin ykkar í búð að þegar þið komið að kassanum að borga þá komist þið varla að honum fyrir öllu sælgætinu sem búið er að stilla þar upp. Til hvers er það? Það er til að gera börnin brjáluð þegar verið er að borga og til að fá fólk til að kaupa nammi. Þetta er bara svona, við getum ekki neitað því.

Haldin var ráðstefna á Grand Hótel 1. október 2014, fyrir stuttu, hjá Náum áttum sem er forvarna- og fræðsluhópur um velferð barna og unglinga. Þar héldu nokkrir fyrirlestur og þar á meðal Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur sem vísaði í fullt af rannsóknum sem gerðar hefðu verið um allan heim sem bentu til þess að með því að selja áfengi í búðum aukist neyslan gríðarlega. Ég held að við Íslendingar verðum þannig, við erum þannig þjóð. Munntóbakið var nefnt í gær. Það er faraldur á Íslandi. Við erum svona fólk sem hoppum á það sem er nýtt og ég held að aukið aðgengi að áfengi mundi auka neyslu barna. Ég get ekki staðhæft það en ég tel það.

Hildigunnur setti upp íslenska sviðsmynd, ef áfengi færi í matvöruverslanir. Ef áfengi yrði selt í matvöruverslunum í stórmörkuðum mundi vínbúðum fjölga úr 48 í 200 verslanir, úrval áfengra drykkja yrði minna nema í sérverslunum, lenging yrði á afgreiðslutíma upp í 70 klukkustundir á viku og selt á sunnudögum. Verð á áfengi yrði breytilegt, ódýrt áfengi selt undir eigin vörumerki, tekjur ríkisins mundu minnka, vill hún halda fram, og eftirlit með áfengisinnkaupaaldri yrði sennilega ekki eins árangursríkt og hjá vínbúðunum. Bann við auglýsingum á áfengi yrði afnumið, ég held að það mundi örugglega gerast á einhverjum tíma, þrýstingurinn yrði svo gríðarlegur frá þeim sem eru að selja. Við vitum hvernig hægt er að fara í þingmenn og fá þá til að vinna að þessu. Ég held að auglýsingabannið yrði fljótlega afnumið.

En það er ekki allt vont í þessu frumvarpi. Til dæmis er talað um aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu sem ég tel kannski það besta í því, þá mundu 5% áfengisgjaldsins renna í forvarna- eða lýðheilsusjóð í stað 1% núna. Það væri stórkostlegt framfaraskref vegna þess að það er alveg ljóst, og kom fram hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni áðan og fleirum, að forvarnir eru gríðarlega mikilvægar og hafa gríðarlega mikið að segja.

Ég man eftir því þegar farið var í mikla árásarherferð gegn tóbaki í skólum og hvaða áhrif það hafði. Við eigum endalaust að vera að bera út þann áróður. Mundum við vilja selja kannabis í búðum, amfetamín, mundum við vilja það?

Ég fór á fyrirlestur um daginn upp í háskóla hjá David Nutt, sem er heimsþekktur breskur vísindamaður og sérfræðingur í vímuefnamálum. Hann hefur getið sér gott orð fyrir miskunnarlausa gagnrýni á hræðsluáróður og rangfærslur stjórnmálamanna og fjölmiðla í vímuefnamálum. Hann hefur einnig hlotið skrokkskjóður fyrir óþægilegan heiðarleika og hreinskilni ekki síst vegna þess að hann skrifaði um hættu af völdum ýmissa vímuefna. Hann tók fram í fyrirlestri sínum sem hann hélt þarna, og ég held að hér séu fleiri þingmenn sem voru þar, að ef við vildum ekki auka á áfengisvandann hjá þeim sem ættu nú þegar í vandræðum með alkóhól og ef við vildum stemma stigu við drykkju ungs fólks skyldum við aldrei setja áfengi inn í stórmarkaði eða sjoppur. Hann var alveg klár á því. Þetta er maður sem er búinn að stunda þessar rannsóknir í fjóra áratugi, búinn að skrifa 400 greinar og 26 bækur um þessi mál. Hann benti á tölur sem sýndu fram á að áfengisneysla í Bretlandi jókst upp úr öllu valdi þegar áfengi var gefið frjálst inn í búðir.

Ég fagna samt þessari umræðu, að hún sé málefnaleg og án stóryrða. Þetta er stórt og mikið mál og ég skil hv. þingmann mjög vel. En hann fékk mig líka til að hugsa þetta mál algerlega upp á nýtt. Mig langar til að vitna í aðstoðarforstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem hann hvetur ríkisstjórnir til að stuðla að vitundarvakningu um skaðsemi áfengis. Hann vill skattleggja áfengi og vinna gegn óheftri markaðssetningu. Stofnunin bendir þjóðum heims á að fylgja fordæmi ríkja eins og Íslands þar sem ríkisstjórnir hafa markað þá stefnu að draga úr ofneyslu áfengis; og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á það í gær.

Dæmi um þær aðgerðir sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vill að ríkið beiti er að skattleggja áfengi sérstaklega umfram aðrar vörur, að lög séu sett um sérstakan lágmarksaldur fyrir áfengisneyslu og að ríkið grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir óhefta markaðssetningu. Það þarf að gera meira til að vernda fólk fyrir neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu, segir dr. Oleg Chestnov og ég er eiginlega alveg sammála honum. Við þurfum kannski að gera miklu meira af því frekar en að auka aðgengi vegna þess að við þekkjum þetta allt, hvaða afleiðingar þetta hefur. Um helmingur banaslysa í umferðinni og um þriðjungur drukknana er vegna ölvunar. Sjálfsvíg sem hafa mikið verið í umræðunni undanfarið — um þriðjung þeirra má rekja til ölvunar. Ofbeldi af öllu tagi má rekja til ölvunar og heimilisofbeldi. Nánast undantekningarlaust er áfengi valdur að heimilisofbeldi sem við erum að vinna í; og hv. þingmaður hefur komið fram með frábært frumvarp hvað það varðar. Morð — helmingur morða er framinn undir áhrifum áfengis. Fósturskemmdir — ef drukkið er á meðgöngu getur fóstrið skaðast. Heilsutjónið — lifrin, heilinn og taugakerfið skemmast og vinnutap og vinnuslys eru oft vegna áfengisneyslu. Ég varð til dæmis sjálfur að vera frá vinnu í fimm vikur á kostnað ríkisins út af þessum sjúkdómi.

Ég fór í gær á baráttu- og afmælisfund SÁÁ. Það var kannski kaldhæðni örlaganna að alþingismenn skyldu leggja þetta frumvarp fram í þinginu sama dag og Vogur hélt upp á 37 ára afmæli sitt. En þar var skýrt að þetta eigum við aldrei að samþykkja.

Ég vil að þessi umræða fari fram og að hún verði heiðarleg og málefnaleg svo að við komumst að niðurstöðu sem er til heilla fyrir þjóðina.