144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:40]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilvitnanir í ræðu hv. þingmanns voru mjög góðar, þar sem sýnt var að foreldrarnir væru fyrirmynd barna sinna. Ég skora á hv. þingmann að koma við á Fjarðarhrauni rétt hjá stærsta auglýsingaskilti landsins sem er merkt Vínbúð, leggja þar, og sjá hve margir fara með börnin sín inn í áfengisverslunina; sem er örugglega mjög sterk upplifun fyrir börnin, öðruvísi en ef foreldrar gætu farið inn í matvöruverslunina og sett eina flösku í körfuna. Það er önnur upplifun að fara inn í stóra vínverslun.

Ég stoppa stundum í þessari Bónusverslun. Þar er undantekningarlaust einhver að fara með börnin sín inn í áfengisverslunina, fer síðan með áfengið út í bíl og svo inn í matvöruverslunina. Hv. þingmaður kom líka inn á fyrirlesturinn Náum áttum. Nú tek ég fram að þar var mér ekki boðið að kynna frumvarpið eða efni þess heldur voru hafðar uppi rangfærslur og þar var einsleit umræða sem ég geld varhuga við.