144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:55]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég mundi alls ekki vilja auka áfengisneyslu inni á heimilum, það er alveg á hreinu. Nóg er hún samt.

Ég man eftir því þegar ég var unglingur og fór í skóla í fjölbraut, þá var aðalsamkomustaðurinn hérna fyrir utan, fleiri þúsund unglingar ofurölvi um hverja einustu helgi og þar á meðal ég. Þetta er algjörlega horfið. Það er fullt af áfengi enn inni á heimilum eftir að þessi menning breyttist, því miður.

Ég held að þetta frumvarp sé þess eðlis að það komi til með að auka áfengisneyslu vegna þess að allar rannsóknir benda til þess að áfengisneysla aukist ef sala á áfengi er gefin frjáls. Það er bara staðreynd. Þetta er ekki neitt sem ég er að finna upp, heldur sýna alþjóðlegar rannsóknir það. Það er það sem ég er ofboðslega hræddur við að muni gerast, að drykkja inni á heimilum muni aukast og verða meiri hjá þeim sem eru yngri, jafnvel eins og í Danmörku þar sem (Forseti hringir.) fermingin er vígsla til áfengisneyslu.