144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal koma betur inn á það með frelsi og gróða í þessu sambandi í ræðu minni þegar ég hef aðeins meiri tíma. Það sem hér er einmitt verið að leggja til er að innleiða gróðaþáttinn inn í þetta svið. Ríkið hefur þessa verslun með höndum meðal annars af þeirri ástæðu að þar með er aftengdur hagnaðarhvati einkaaðila af því að selja sem mest áfengi og ríkið hefur það ekki sem markmið. Þetta er lögleg vara og um hana gilda tilteknar reglur, þess vegna hafa margar þjóðir sem betur fer komið sér upp því skipulagi að ríkið, sem ber hinn ómælda kostnað vegna vandamála sem tengjast áfengi og vímuefnum og tóbaki, haldi þá utan um verslunina og framkvæmi stefnu sína í gegnum það meðal annars að það sér um dreifingu vörunnar.

Frelsi í mínum huga er til dæmis að eiga fyrir mat. Frelsi í mínum huga er að geta boðið börnum sínum sömu tækifæri og aðrir. Frelsið er kannski umfram allt það að vera ekki fátækur. (Forseti hringir.) Frelsi er að búa við góða heilsu. Frelsið er í mínum huga algjör andstæða þess (Forseti hringir.) sem hér er teflt fram í þessu máli.