144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, að sjálfsögðu mundi ég ekki vilja snúa aftur. Það er ekkert launungarmál að aðgengi hefur auðvitað aukist með fleiri verslunum ÁTVR. Það er breyttur tíðarandi og við bregðumst að sjálfsögðu við því og eðlilegt að ÁTVR geri það. En það þýðir ekki að það sé samasemmerki á milli aukinnar neyslu almennt og þess að ÁTVR hafi fjölgað verslunum. Eins og kemur fram í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er gert ráð fyrir því að ef áfengið fari í verslanir aukist neyslan eitthvað til að byrja með, svo er ekki vitað meira. En það kemur fram að við erum með einna minnstu unglingadrykkjuna miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Það segir mér að sú stefna sem við höfum rekið hefur borið árangur. Hún hefur gert það. Meðan svo er, meðan hún ber árangur, veit ég ekki alveg af hverju við þurfum að breyta fyrirkomulaginu. Við þurfum frekar að bæta í og ná enn betri árangri. Enn betri árangri.

Ég held því að við séum að minnsta kosti með betra fyrirkomulag núna en það yrði ef við færum með þetta út í verslanir.