144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Af hverju er munur á áfengi og aldurstakmörkum? Sagðirðu það? (BLG: Sölu áfengis og tóbaks …) og tóbaks? Já, það er náttúrlega afar góð spurning. Af hverju erum við ekki með sama aldurstakmark þar á? Ég hef svo sem ekki patent svar við því og væri kannski skynsamlegt að skoða í sjálfu sér. En mér finnst þetta ekki endilega vera eitthvað sem við eigum að stilla upp hlið við hlið í sjálfu sér þótt hvort tveggja sé á höndum ríkisins og ÁTVR verslunarinnar. Það má líka segja að tóbakið sé vel merkt. Þar er gerð grein fyrir allri hættu. Það er ekki gert með áfengið. Það er munur á því hvernig þetta er fram sett. Eins og kom fram í ræðu í gær ætti kannski að merkja áfengið í bak og fyrir með alls konar upplýsingum um hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér.

Ég get ekki svarað því og ég hef eiginlega ekki myndað mér skoðun á því. En ég er hins vegar sannfærð í hjarta mínu um það að fólk á hvorki að byrja að drekka né reykja, það er svo aftur annað mál, allra síst fyrir þann aldur sem við gefum okkur upp að sé áfengiskaupaaldur af því að það er auðvitað alveg staðreynd að eftir því sem lengra líður er minni hætta á óreglu. Það á alveg við um tóbak líka. Ég er alveg sammála þingmanninum, ef það er það sem hann er að leiða líkum að, að það væri ekki óskynsamlegt að hafa hvort tveggja við sama aldur.