144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbak, með síðari breytingum, sem snýr að smásölu áfengis.

Fyrsti flutningsmaður málsins, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, fór mjög vel yfir þær breytingar á fyrr talin lög sem frumvarpið felur í sér og önnur þau lög þar sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kemur fyrir. Þá fannst mér hv. þingmaður jafnframt færa góð rök fyrir framlagningu frumvarpsins og tilefni til aukins frelsis í smásölu á áfengi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að málið hefur oftsinnis verið lagt fram áður, síðast á 136. löggjafarþingi, en ekki hlotið afgreiðslu þá frekar en í fyrri skipti.

Virðulegi forseti. Sem meðflutningsmaður þessa máls er ég þeirrar skoðunar að það sé tímabært að láta á það reyna að leggja af einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis og stíga þannig skref í átt til aukins frelsis. Í prinsippinu er ég þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að stunda atvinnurekstur sem hinn almenni markaður getur sinnt. Það er þó ekki svo að mér finnist það endilega sjálfsagt í öllum tilvikum og engan veginn í þessu tilviki enda um viðkvæma vöru að ræða í þess orðs fyllstu merkingu.

Eftir að hafa vegið og metið kosti þess og galla að afnema einkaleyfi ÁTVR og gefa söluna frjálsa með þeim skilyrðum sem frumvarpið tiltekur styð ég þetta mál og mun reyna í þessu erindi að gera grein fyrir þeirri afstöðu minni. Frumvarpið hefur fengið þó nokkra umræðu í aðdraganda þess að það er nú lagt fram. Sitt sýnist hverjum eftir því frá hvaða hlið það er skoðað og vissulega eru ókostir við það að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu. Frelsi er jú alltaf vandmeðfarið.

Við getum lesið þetta út frá þeirri lagastoð sem ÁTVR sækir einkaleyfi sitt í með lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, en um þau segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Markmið þeirra laga eru að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og takmarka framboð á óæskilegum vörum.“

Virðulegi forseti. Auðvitað ber að staldra við þegar rætt er um almenna lýðheilsu, skaðleg áhrif áfengisneyslu og ekki síst að reyna að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis. Það skiptir miklu máli þegar við ræðum þessa breytingu. Ýmis skilyrði eru þess vegna sett fram í frumvarpinu til að mæta þeirri samfélagslegu ábyrgð sem fylgir því að versla með áfengi. Sveitarstjórnir geta veitt einkaaðilum og lögaðilum leyfi til þess að smásöluverslanir með áfengi fái til þess leyfi gegn gjaldi sem rennur í ríkissjóð. Óheimilt er að selja áfengi undir kostnaðarverði, opnunartími er takmarkaður, en þó er heimilt að hafa skemmri tíma en átta stundir, eins og kveðið er á um í frumvarpinu, ákveði sveitarfélög svo. Það er gert ráð fyrir því að starfsmenn þurfi að vera 18 ára til þess að afgreiða vöruna og þá er verslunaraðilum skylt að uppfylla skilyrði um geymslu vökva sem er sterkari en 22%, sem er jafnframt afmarkaður frá öðru verslunarrými.

Að taka þennan rekstur úr ríkisforsjá mun þýða ábata fyrir verslun, ábata fyrir neytendur, aukið hagræði, að líkindum aukið vöruval, aukna framleiðni í verslun, sparnað í rekstri verslunarpláss fyrir ríkið, þægindi við losun um fjármagn sem er bundið í ríkisrekstri, þægindi fyrir neytendur og bætt aðgengi á landsbyggðinni. Með öðrum orðum erum við að tala um aukið verslunarfrelsi og aukið persónufrelsi.

Á móti þessum rökum eru aðallega þær skuggahliðar frumvarpsins að neysla muni við þessar breytingar aukast og hafa í för með sér verri lýðheilsu, aukið álag á heilbrigðiskerfið og félagsleg vandamál. Þetta er það sem við erum að vega og meta og kemur vel fram í umræðunni. Afleiðingar þessa eru mögulega dýrari löggæsla og aukin heilbrigðisþjónusta. Hvaða tæki, virðulegi forseti, höfum við almennt til að reyna að stýra áfengisdrykkju? Er það æskilegt og hversu langt eigum við að ganga í þeim efnum? Jú, við höfum verð og skattlagningu. Hér er hvort tveggja hátt og dregur að einhverju marki úr neyslu en hvetur á sama tíma til ólöglegrar starfsemi. Við getum takmarkað aðgengið og við getum spurt: Höfum við verið á þeirri leið? Nei. Hér hefur komið fram að útsölustaðir hafi þrefaldast frá lokum áttunda áratugar, ef ég man það rétt, frá 1987 og hingað til, úr 13 í 41.

Á sama tíma berast þau gleðilegu tíðindi að þeim hefur fjölgað um 72% í 10. bekk og yngri sem ekki byrja að neyta áfengis. Þrátt fyrir þessa fjölgun útsölustaða höfum við náð árangri. Þá verðum við að fara með þetta á næsta stig og spyrja: Af hverju og hvernig náum við þessum árangri? Er það ekki vegna þess að forvarnir í formi upplýsinga og þekkingarmiðlunar hafa aukist og er betur sinnt í skólakerfinu og samtökum sem sinna lýðheilsu og forvörnum á þessu sviði? Er þetta ekki lykilatriðið þegar við flysjum tilfinningarnar frá þessu máli og rýnum í rannsóknir frá mismunandi menningarheimum og flöggum hér til stuðnings á báða bóga, sem við gerum, hv. þingmenn? Er ekki fræðsla og þekkingarmiðlun samkvæmt þessu það sem skiptir höfuðmáli þannig að einstaklingurinn geti tekið upplýstar ákvarðanir á þessu sviði sem öðrum?

Ég er ekki hissa á því að þeir sem eru andvígir málinu haldi á lofti lýðheilsurökum. Hver mælir gegn lýðheilsu? Forvarnir sem byggja á upplýsingum og aukinni þekkingu duga þar best. Það sýnir sig, trúi ég, í þessari tölfræði að fólk sé meðvitað um afleiðingar þess að neyta áfengis, áhrif þess á líkamann, á taugakerfið, athygli, viðbrögð, að áfengi og akstur fari ekki saman, að áfengisneysla dragi úr árangri á flestum sviðum, að áfengi og íþróttir fari ekki saman og svo mætti lengi telja. Enginn sem flytur þetta frumvarp mælir gegn þessum rökum.

Virðulegi forseti. Það stríðir hins vegar gegn minni betri vitund og trú á einstaklinginn að bjarga fólki frá því að taka ábyrgð á eigin lífi með því að einangra söluvöruna við ríkiseinokun. Ég geri þó ekki lítið úr því að vissulega er bent á rannsóknir sem benda til að ríkiseinokun sé ein leið — ein leið — á hinu pólitíska sviði stefnumörkunar til að takmarka aðgengi. Ef mið er tekið af samantekt landlæknis úr bókinni sem hefur verið vitnað til úr ræðustól, Áfengi – engin venjuleg neysluvara, eru þar talin upp tíu atriði sem helst hamla og standa upp úr þegar opinber stefna er mótuð. Það má spyrja sig hver staðan er og hver hún verður gagnvart þessum tíu atriðum verði þetta frumvarp að lögum.

Níu af þessum tíu atriðum eru eftirfarandi:

Aldurstakmarkanir við áfengiskaup. Þau eru óbreytt.

Takmarkanir á sölutímum og söludögum. Það verður enn háð skilyrðum.

Takmarkaður fjöldi sölustaða. Enn háð skilyrðum.

Áfengisskattar. Áfram háir.

Lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna. Ströng skilyrði eftir sem áður.

Eftirlit með ölvunarakstri. Óbreytt og vonandi hert.

Ökuleyfissvipting við ölvunarakstri. Það helst á staðnum, óbreytt.

Ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum. Óbreytt.

Stutt úrræði handa fólki sem drekkur mikið (áhættuhópi). Meðferðarúrræði.

Það er möguleiki með þessu frumvarpi, nái það fram að ganga, að auka enn rannsóknir, forvarnir og stuðning við þá sem sannarlega eiga í vandræðum. Í þessu frumvarpi getum við því gert enn betur af því góða starfi sem hefur verið unnið.

Það sem eftir stendur er að ríkiseinkasala áfengis er afnumin. Það er það sem stendur eftir. Það er ekkert gefið eftir í stefnumótun og forvörnum og vinnu gegn skaðsemi áfengis eða lýðheilsu á þessu sviði.

Það er verið að breyta einu af þessum tíu atriðum sem geta unnið á pólitísku sviði í stefnumörkun gegn neikvæðum afleiðingum áfengisdrykkju. Það er ekki óyggjandi að þetta eina atriði og sú breyting sem verður, miðað við þær auknu forvarnaaðgerðir sem frumvarpið felur í sér eða möguleikana til þess, að það verði endilega sá vendipunktur sem haldið er fram gegn þessu máli. Þannig standa eftir hin níu atriði og þá er að nefna að menningarheimar eru mismunandi og viðbrögð við ólíkum aðferðum mismunandi eftir því. Hér hefur unglingadrykkja farið minnkandi og það ber að hrósa samstarfi heimila og skóla og aukinni upplýsingamiðlun. Í þessu frumvarpi er sem sagt gert ráð fyrir því að efla forvarnir með því að efla Forvarnasjóð úr 120 milljónum í 580 milljónir. (Gripið fram í.) Þetta snýr að lýðheilsurökum, hv. þingmaður.

Á móti kemur að verslun er efld, framleiðni verslunar aukin, þægindi neytenda aukin, neytandi getur valið að kaupa áfengi á sama stað og um leið og honum sýnist. Það er umtalsvert almannafé bundið í eignum og rekstri og í dýru dreifikerfi. Það eru fjármunir sem má losa um og nýta betur. Aukið aðgengi að löglegu áfengi ætti að minnka ásókn í ólöglegt. Því er líklegt að samþykkt frumvarpsins muni leiða til minni neyslu á hvers kyns bruggi. Slíkt mun aftur draga úr krafti ólöglegrar áfengissölu.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór vel yfir það að aðgengið í dag er orðið þannig að þessi breyting verður ekki sá vendipunktur sem helst er haldið fram til rökstuðnings gegn þeirri breytingu til verslunar- og persónufrelsis sem frumvarpið felur í sér. Það er mitt mat, virðulegi forseti.

Það hafa verið uppi vangaveltur um í hvaða nefnd þetta mál eigi heima. Ég get tekið undir að þetta snertir svið nokkurra nefnda. Áfengislöggjöfin hefur verið hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta frumvarp hefur hingað til farið þangað. Hér er um að ræða leyfisbreytingar, eftirlitsskyldur, viðurlög og ýmsa þætti sem snúa að stjórnsýslu, aðkomu sveitarfélaga o.s.frv. þannig að það eru sterk rök fyrir því að málið eigi heima hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Hér er um byggðamál að ræða og þetta er ferðaþjónustumál. Okkur finnst ekkert tiltökumál að heimsækja héruð í Frakklandi, á Ítalíu og víðar og smakka vín. Þetta frumvarp mun gefa brugghúsum víða um land tækifæri til að veita viðlíka þjónustu, jafnvel útvíkka viðskiptahugmyndina „Beint frá býli“, gefur ýmsa möguleika og styrkir ferðaþjónustuna sem atvinnugrein. Við tölum um það á tyllidögum að hér skorti afþreyingu fyrir ferðamenn þannig að þeir geti eytt gjaldeyri sem er dýrmætur fyrir hagkerfi okkar þannig að þetta frumvarp á sér margvíslegar hliðar.

Þetta er byggðamál, eins og ég segi, aðgengi úti um land er ekki það sama. Með þessu fyrirkomulagi er mögulega verið að bregðast við því og auka jafnræði. Víða er haldið úti kjörbúðum. Það eru 36 vínbúðir og 74 sveitarfélög. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir taldi ekkert tiltökumál að keyra 30 kílómetra. Ég held að við ættum að fara betur með tímann okkar, spara olíu og auka hagræði fyrir neytendur og verslun.

Virðulegi forseti. Þessi rekstur á í mínum huga að vera í höndum einkaaðila með þeim skilyrðum sem vinna gegn skaðsemi mjaðarins. Það tel ég þegar allt er vegið og metið vænlegri kost fyrir ríkissjóð, fyrir verslunina og fyrir neytendur, það eykur persónufrelsi, viðskiptafrelsi, dagvöruverslunin styrkist, framleiðni eykst, ferðaþjónusta styrkist, ólögleg starfsemi minnkar að líkindum og þessi ávinningur verður á sama tíma og við erum algjörlega meðvituð um þá samfélagslegu ábyrgð sem fylgir viðskiptum með vöruna, jafnvel enn meðvitaðri en áður þar sem við treystum fólki til að taka sínar eigin ákvarðanir með aukið hagræði í huga.