144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst spyrja hv. þingmann: Ef við viljum auka framlög í lýðheilsusjóð til forvarnastarfs, þurfum við þá að breyta kerfinu til þess? Er það ekki hálfgerð sýndarmennska að tengja þetta svona saman? Ef það kæmi nú út úr þessu máli að samstaða væri meðal þingmanna um að hækka hlutdeild lýðheilsusjóðs í áfengisgjaldi og ekkert annað yrði gert þá yrði ég ánægður. En það er auðvitað það sem blasir við að er hægt að gera.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Okkur hefur borist áskorun frá samstarfsráði um forvarnir þar sem þingmenn eru í fyrsta lagi hvattir til að kynna sér þetta vel og sækja sér ráðgjöf og upplýsingar frá sérfræðingum í lýðheilsumálum, áfengis- og vímuefnamálum og ekki síst þeim sem sinna málefnum ungmenna. Hverjir standa að samstarfsráði um forvarnir? Það eru Heimili og skóli. Það eru foreldrasamtök gegn áfengisvandanum. Það er Krabbameinsfélagið. Það eru skátarnir. Það er Kvenfélagasamband Íslands. Það er Samhjálp. Það er Brautin, bindindisfélag ökumanna. Það er Ungmennafélag Íslands. Það er Foreldrahús. Það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Og fjöldamörg önnur sambærileg samtök. Þau skora (Forseti hringir.) á þingmenn að fella þetta frumvarp. (Forseti hringir.)

Er hv. þingmaður sammála því að þetta séu aðilar sem við eigum kannski að hlusta á og taka mark (Forseti hringir.) á?