144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu um þetta málefni.

Það sem mér fannst vera sérstaklega heiðarlegt hjá hv. þingmanni er þegar hann kemur alveg klárt með hver er tilgangurinn með þessu frumvarpi; það er að auka frelsi verslunar til að hafa ágóða af því að selja áfengi. Það er fyrst og fremst það sem þetta snýst um. Mér finnst heiðarlegt að segja það. Og þegar verið er að tala um að andstæðingarnir séu að draga fram lýðheilsurök, það er ekki vegna þess að það sé í sjálfu sér aðalmarkmiðið, markmiðið er aðallega að við teljum að það sé röng afstaða að telja áfengi sem almenna neysluvöru, það er mín skoðun, og að flokka það eins og hvert annað brauð eða mjólkurvöru í matvöruverslun. Og líka trúin á það sem hefur verið lagt fram af ótal aðilum, m.a. í stefnu núverandi ríkisstjórnar um markmið í áfengis- og vímuefnavörnum, að fyrsti punkturinn er að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum, fyrsti punkturinn frá því í desember 2013. Er hv. þingmaður ósammála þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar sem búið er að leggja fram?