144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í auglýsingar á áfengi og hvernig hann sér það fyrir sér ef einkarekstur ÁTVR verður afnuminn, hvort verslunin muni auglýsa vörur sínar. Nú vitum við að ekki má auglýsa vörur ÁTVR í dag. Hvaða breyting telur hann að verði þar á? Ég mundi halda að það yrði mikill þrýstingur á að auglýsa vöruna, jafnvel þótt menn gengju þannig fram í upphafi að hún yrði ekki auglýst frekar en nú er mundi myndast mikill þrýstingur á slíkt.

Talandi um allt frelsið sem menn skreyta sig með í þessari umræðu, af hverju ætti þá ekki að vera heimilt að selja áfengi eftir klukkan átta á kvöldin? Hvað með umræðuna um steikina og rauðvín og hvítvín á helgum miðað við núverandi aðstæður? Getur það ekki komið upp hjá einhverjum góðum aðila að hann vilji fá sér (Forseti hringir.) hvítvín með ostunum á kvöldin? Af hverju ætti ekki að vera hægt að heimila það ef frelsið er haft að leiðarljósi?