144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir hennar spurningu. Mér fannst kjarninn í þeirri spurningu snúa að þessari úttekt landlæknis á bókinni Áfengi – engin venjuleg neysluvara. Ég nýtti hana einmitt í ræðunni þar sem ég fór yfir og tiltók þau tíu atriði sem þar eru talin sem eru ákaflega athyglisverð. Ég fór yfir þessi tíu atriði og við erum bara að gefa afslátt af einu þeirra. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp fjallar um, að það er að taka verslunina úr höndum ríkisins og færa hana yfir (Gripið fram í.) til einkaaðila. Öll hin níu, enginn afsláttur af þeim. (Gripið fram í.) Við höfum farið yfir það í umræðunni að þrátt fyrir að vínbúðum hafi fjölgað hefur unglingadrykkja minnkað. Ég trúi að það sé vegna þess að við erum að auka þekkingu unglinga og miðla upplýsingum og þekkingu.