144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé áhugavert að bera saman lýsingar aðstandenda frumvarpsins í upphafi greinargerðar þess og gildandi lög um verslun með áfengi og tóbak. Það dregur kannski fram þá gjörólíku nálgun á þessu máli sem annars vegar er fólgin í hálfu afstöðu flutningsmanna eða þeirra sem sömdu þá greinargerð og hins vegar hugsunin á bak við gildandi fyrirkomulag.

Hér segir á bls. 5 að almennt fari ekki mikið fyrir þeirri skoðun í stjórnmálum að hið opinbera eigi að standa fyrir verslunarrekstri og að hitt sé frekar meginreglan. Svo séu undantekningar á þessu og þá fyrst og fremst þar sem einkaaðilar sjái sér ekki hag í því að stunda verslunarstarfsemi sem þó sé nauðsynleg. Þá finni hið opinbera sig stundum knúið til þess að grípa inn í. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Þegar að smásölu á áfengi kemur virðist meginreglan af einhverjum orsökum ekki eiga við.“

Er það flutningsmönnum alveg hulið hverjar þær orsakir eru?

Hvernig nálgast menn þetta í gildandi löggjöf sem var sett í góðri sátt? Þar segir í 2. gr., markmiðsgrein laganna, eins og lesin var hér áðan af hv. síðasta ræðumanni:

„Markmið laga þessara eru:

a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð,

b. að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu,

c. að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum.“

Er í fyrsta lagi einhver ósammála þessu? Eru þetta ekki nokkurn veginn markmið sem við getum sameinast um? Þau leiða líka í ljós að markmiðið er ekki að selja sem mest af þessari vöru, þvert á móti. Markmiðið er ekki að græða á því peninga. Markmiðið er ekki að ríkið standi í verslun verslunarinnar vegna. Það er allt saman misskilningur. Þetta er umgjörð um þetta mál vegna sérstaks eðlis þess.

Ég held að enginn okkar sem andmælum frumvarpinu geri það vegna þess að við viljum að ríkið auki umsvif sín eða haldi þeim óbreyttum í verslunarrekstri. Ég hef engan áhuga á því að ríkið fari að selja skrúfur eða nagla, en þessi vara er ekki venjuleg verslunarvara og við verðum að nálgast þetta út frá því. Annars er þvílíkur himinn og þvílíkt haf á milli okkar að við getum varla talað saman þótt við tölum öll íslensku. Það held ég að sé aðalatriði þessa máls.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, hverra erinda er verið að ganga með frumvarpinu? Hvaða hagsmunum er verið að þjóna? Er það barnanna okkar? Er það ungmenna? Er það landsbyggðarinnar? Er það heilbrigðiskerfisins? Er það okkar allra saman í gegnum ríkissjóð? Í mínum huga er svarið nei í öllum tilvikum. Það eru einhverjir aðrir sem ætla sér í raun ávinninginn af þessu máli. Ég er ekkert feiminn við að segja hverjir það eru. Það er stórverslunin í landinu. Það eru þeir sem standa fyrir stórversluninni í landinu sem munu ná undirtökum á markaðnum, munu ná umboðum fyrir söluhæstu tegundirnar og moka þeim út í sínum búðum. Það er mikill misskilningur að kaupmaðurinn á horninu græði á þessu. Og það er mikill misskilningur að þetta sé í þágu landsbyggðarinnar. Það er eins fjarri sanni og nokkuð getur verið. Það held ég að margt landsbyggðarfólk muni viðurkenna ef menn hafa fyrir því að tala við það, vegna þess að að uppistöðu til er landsbyggðarfólk ánægt með þá þjónustu sem það fær í dag. Það er vissulega þannig að mörg minni byggðarlög sem enn hafa ekki fengið afgreiðslu vildu sjálfsagt gjarnan sjá það þó það sé sums staðar umdeilt, enda er ÁTVR jafnt og þétt að teygja sig í þá átt, nú síðast að opna afgreiðslu t.d. á Kópaskeri. Af hverju? Af því samkvæmt skilgreiningum ÁTVR var óþarflega langt á milli útsölustaða á norðausturhorni landsins. Þess vegna opna þeir á Kópaskeri þó að það sé lítill staður. Þar með er ÁTVR smátt og smátt að þétta netið þannig að landsmenn allir búi við sæmilegt jafnræði að þessu leyti.

Hvar mun landsbyggðin fyrst og fremst tapa ef þessu fyrirkomulagi verður fórnað? Það hefur enginn nefnt það hér, held ég, herra forseti, kannski vegna vankunnáttu. Hún mun tapa vegna þess að flutningskostnaður vörunnar lendir allur á notendum. Morgunljóst. Hvað haldið þið að bjórkassinn muni kosta í búðinni á Bakkafirði með flutningskostnaði frá Reykjavík? Og svo fer virðisaukaskatturinn ofan á allt saman á endanum. Þetta er ekki flókið mál. Þess vegna hefur það verið baráttumál margra að fá afgreiðslu á sínum heimastað til að losna við flutningskostnaðinn, en ekki vegna þess að menn hafi í sjálfu sér ekki getað bjargað sér um vöruna öðruvísi.

Eins og markmiðsgrein gildandi laga ber með sér eru lögin tæki til að stýra og koma í framkvæmd stefnu ríkisins á þessu sviði. Það verðmæta við áfengiseinkasölufyrirkomulagið er að þar með hefur ríkið, almannavaldið, í sínum höndum tækið til að framfylgja stefnu sinni, þar á meðal að tryggja eftirlit með því að aldursmörkin séu virt.

Hvernig halda menn að það gangi úti í mörg hundruð búðum í landinu þar sem ungmenni eru iðulega við afgreiðslu og ættu að fara að neita jafnöldrum sínum um að kaupa eina bjórkippu? Þetta er ekki flókið. Við erum ekki að sáldra hér einhverju óþarfa ryki í loftið, það er nóg af því samt úr Holuhrauni.

Betri þjónusta, hafa menn sagt. Nei, hún mun stórversna. Hún verður kannski góð á aðalþéttbýlissvæðinu, alls ekki þó í öllum verslunum, vegna þess að stóru verslunaraðilarnir munu fyrst og fremst hafa á boðstólum söluhæstu tegundirnar og munu væntanlega tryggja sér umboðin fyrir þau eða flytja þau inn sjálfir, kaupa upp litlu heildsalana. Það mun síðan aftur leiða til enn meiri sölu á þeim tilteknu tegundum og fækka tegundaúrvalinu mjög mikið.

Reglur ÁTVR eins og þær eru í dag eiga sinn þátt í því hvað úrvalið er fjölbreytt vegna þess að þeir taka inn allar vörur og leyfa þeim að reyna sig í sölu og eru svo með mikið úrval í sérbúðum eins og Heiðrúnu og tryggja að lágmarki um 140 tegundir, jafnvel í minnstu afgreiðslum í fámennum byggðarlögum úti á landi. Halda menn að það verði þannig í lítilli verslun sem þarf einhvern veginn að verða sér út um eina, tvær tegundir af rauðvíni og eina, tvær tegundir af hvítvíni til þess að geta að nafninu til boðið upp á þessa vöru eins og aðrar verslanir? Hún þarf væntanlega að sækja þær og til hverra? Stóru aðilanna sem flytja þær inn, kannski stórmarkaðanna. Kannski fer verslunin bara sömu leið og víða annars staðar, fer í Bónus og kaupir kassavín þar til þess að geta boðið upp á rauðvín hjá sér vegna þess að stórmarkaðirnir munu að sjálfsögðu þvinga álagninguna til sín. Þeir munu ekki sætta sig við þau 18% sem ÁTVR leggur á í dag og kannski 15% sem heildsalarnir leggja á að meðaltali. Þeir munu ætla sér þetta hvoru tveggja og helst meira til. Að sjálfsögðu.

Hvað fáum við þá? Hvert verður verslunarfrelsið þá? Þetta fer á fullri ferð yfir í fákeppni og færri tegundir. Það er veruleikinn.

Menn ættu að kynna sér samsetninguna á verði áfengis í dag. Kunna menn það, allir sérfræðingarnir hér sem sömdu frumvarpið? Tökum eina venjulega léttvínsflösku sem kostar 1.600 kr. í hilluverði í ÁTVR. Þar af er virðisaukaskattur 325 kr. og álagning ÁTVR 194 kr. Þá stendur eftir verðið frá heildsala með áfengisgjaldi og skilagjaldi, því heildsalan leggur það á, kannski um 1 þús. kr. á flöskuna. Af því er áfengisgjaldið 645 kr. og skilagjaldið 18,30. Eftir stendur þá, með álagningu heildsalans, um 418 kr. sem gæti þýtt miðað við t.d. 15% álagningu að innkaupsverð með flutningskostnaði til landsins sé 363 kr. Þetta gæti verið nokkuð gott dæmi um verðsamsetningu venjulegrar léttvínsflösku á 1.600 kr.

Hvernig haldið þið að verslunin fari að ef hún á ekki að hækka umtalsvert verð á vörunni? Ég veit ekki til þess að flutningsmenn ætlist til þess að það gerist. Þá er bara tvennt til; ríkið lækkar áfengisgjald til að búa til svigrúm fyrir álagningu verslunarinnar eða að smásalan hirðir það allt, útrýmir heildsalanum, flytur inn vöruna sjálf og nær þessu þannig. Það er það sem ég spái að gerist. Þar er auðvitað mótorinn á bak við þetta. Það er stórverslunin í landinu sem vill fá þetta til að höndla með.

Þá kemur að einu enn sem því miður enginn hefur almennilega nefnt að mínu mati í þessari umræðu. Mikilvægasti einstaki þátturinn við áfengiseinkasöluna er að gróðafaktorinn er tekinn út, að hagnaðarvon einkarekinnar verslunar í því að græða á brennivínssölu er tekinn úr sambandi með því að ríkið sjái um þetta eins og það er í dag að lang-, langmestu leyti. Þannig er það.

Er þetta mál verslunarmál eða er það lýðheilsu- og heilbrigðismál? Þar kristallast kannski ágreiningur. Menn tala um verslunarfrelsi og frelsi einstaklingsins. Ég tel að ég hafi leitt í ljós að frelsishugtakið hjá Sjálfstæðisflokknum snýst aðallega um það að einkareksturinn megi græða á brennivíni. Þar er komið alveg að hjartarótum frelsishugtaksins í hugum sjálfstæðismanna.

En við sem nálgumst þetta frá öðrum sjónarhóli sem lýðheilsu- og heilbrigðismál horfum öðruvísi á þetta. Það hafa Norðurlöndin með einni undantekningu yfirleitt gert með þeim árangri að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur lönd til að fara að fordæmi Norðurlandanna Íslands, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar en ekki Danmerkur að sjálfsögðu, enda vitum við muninn sem þar er á milli. Þetta er ástæðan fyrir því að Norðurlöndin slógust fyrir og höfðu í gegn fyrirvara þegar þau ýmist gengu í ESB eða gerðu EES-samninginn um að þau fengju að halda sinni áfengisstefnu óbreyttri. Og hvað sögðu Norðurlöndin í þeim viðræðum? Þau sögðu: Þetta er ekki verslunarmál. Þetta er ekki viðskiptamál. Þetta er hluti af heilbrigðisstefnu Norðurlandanna. Þetta er lýðheilsustefna Norðurlandanna og við ætlum ekki að offra henni í eitthvert fríverslunarbandalag.

Þennan fyrirvara hafa menn haft í gegn. Hann hefur að mestu haldið þrátt fyrir tilraunir manna til að knésetja hann með ítrekuðum málaferlum úti í Evrópu. Það er nú svo gott.

Við höfum nýlega innleitt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er það í anda hans að fara með brennivínið út í allar búðir í landinu? Er það? Nei, auðvitað ekki. Veruleikinn er sá að Ísland væri að fara í öfuga átt miðað við strauminn eins og hann er nú því fjölmargar þjóðir sem glíma við þung vandamál vegna ofneyslu áfengis eru að reyna í vissum skrefum að snúa til baka. Meira að segja í Frakklandi hafa verið umræður um að Frakkar færðu sig í átt til áfengisstefnu Norðurlandanna og færu að því leytinu að ráðgjöf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Ég vitnaði til áskorunar sem við alþingismenn fengum senda í morgun frá öllum þeim sem standa saman að samstarfsráði um forvarnir. Eigum við ekki að taka mark á þeim? Eigum við að taka mark á landlækni? Lýðheilsustöð? Eigum við að taka mark á Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni? Þá þurfum við ekki að vera í neinum vafa. Við erum með gott fyrirkomulag ásamt þremur öðrum Norðurlöndum sem hefur skilað framúrskarandi árangri borið saman við flest önnur lönd og með því er mælt af heilbrigðis- og félagsmálayfirvöldum í heiminum að fylgja fordæmi Norðurlandanna. Hvers vegna ættum við að fórna því?

Það er rétt að ýmislegt gott hefur gerst í þeim efnum. Við höfum náð árangri gagnvart neyslu í grunnskólum, það blasir við. Það hefur verið mikið átak í þeim efnum. Sumir vilja meina að það hljóti að vera mótsögn í því að nefna aðgengismálið annars vegar og fjölgun afgreiðslustaða hjá ÁTVR hins vegar, en samt höfum við náð þessum árangri. Ég tel einmitt þvert á móti að það sýni að við getum, ef við stöndum skynsamlega að því, haft þessa sambúð mun skárri en ella væri og dregið úr vandamálum samfara ofneyslu áfengis sem verða auðvitað alltaf með okkur.

Ég trúi ekki öðru en að margir alþingismenn og sérstaklega þeir sem eru ef til vill með óuppgerðan huga að einhverju leyti enn þá hlusti á óskir þessara aðila, hlusti á Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Heimili og skóla, félagsmiðstöðvarnar o.s.frv. Mér finnst að við eigum að gera það, herra forseti.

Tíminn er naumur, því miður, en að lokum vil ég segja að ég er að sjálfsögðu sammála því atriði frumvarpsins að verja meira fé til fræðslu og forvarnastarfs, þótt ég taki undir það sem því miður liggur fyrir að áhrifin af slíku eru miklu takmarkaðri en maður vildi vilja trúa og þau vara skammt nema þeim sé fylgst stanslaust eftir. En auðvitað ætlum við samt að halda uppi fræðslu og forvörnum og upplýsa um skaðsemi þessarar vöru.

Hér er lagt til að taka myndarlega á í þeim efnum, fara úr 1% af áfengisgjaldi upp í 5% í lýðheilsusjóð. Gerum það þá. Gerum það bara og látum kerfið óbreytt í friði. Það hefur gefist vel. Það eru engin rök sem halda vatni fyrir því að henda því fyrir róða. Það er glannaskapur. Það er ekkert annað en ábyrgðarleysi að mínu mati að horfa ekki praktískt og raunsætt á þessi mál og lenda ofan í einhverjar hugmyndafræðilegar skotgrafir í þeim efnum af því að þær eru líka (Forseti hringir.) að mestu leyti uppdiktaðar. Það er enginn sem er að krefjast þess að ríkið auki (Forseti hringir.) umsvif sín í verslun í landinu og fari að versla með hvað sem er, það er ekki þannig. Og það (Forseti hringir.) er ekki það sem hér skiptir máli heldur allt, allt annað. (Forseti hringir.) Þannig að um hvað er þá ágreiningur?