144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi ætla að á um það bil aldarfjórðungi skipti maður um skoðun, annars mundi ég halda að hann væri ekki að læra mjög mikið. Að minnsta kosti mundi ég ætlast til að hann skipti um skoðun í einhverjum málefnum.

Eins og frægt er barðist hv. þingmaður ötullega gegn lögleiðingu bjórs á sínum tíma, sem var nánar tiltekið í maí árið 1988. Þar áður og eftir varaði hann líka við því að áfengisneysla mundi aukast, sem hún hefur gert. Á sama tíma hefur áfengisneysla ungmenna dregist saman af öðrum ástæðum. Það er ekki vegna lögleiðingar bjórsins, það er vegna þess að fólk hefur beitt réttum aðferðum. Réttar aðferðir eru fræðsla og forvarnir. Við stöndum okkur reyndar ekki nógu vel í meðferðarúrræðum fyrir unglinga, ef út í það er farið, en hlutirnir eru að batna þegar kemur að unglingadrykkju þrátt fyrir aukna áfengisneyslu. Sama mynstur birtist í Bretlandi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Ef hann gæti farið aftur til ársins 1987 og haft hlutina eins og þeir voru þá, þegar í landinu voru 13 áfengisbúðir (Forseti hringir.) og bjór var bannaður, mundi hann gera þetta? Og ef ekki, hvers vegna ekki?