144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi ekki vilja fara aftur til 1987 nema kannski af einni ástæðu, þá væri ég svolítið yngri að árum. Ég held að þetta séu spurningar sem menn geta auðveldlega beðist undan að svara. Það er heimskulegt að spyrja svona ósköp einfaldlega vegna þess að — hvað hefur það upp á sig? Ef, ef, ef. Eitt af því sem ég lærði snemma í pólitík var að það hefði lítið upp á sig að ræða í skilyrðissetningum, þ.e. ef ég hefði gert eða sagt eitthvað svona eða hinsegin.

Það er rétt, ég greiddi atkvæði gegn því að lögleiða bjórinn. Ég áttaði mig alveg fullkomlega á því eins og við sjálfsagt flest á þeim tíma að það væri væntanlega tímaspursmál hvenær hann kæmi, en það skipti máli hvernig það væri gert. Ég hafði mínar tillögur í þeim efnum. Ástæðan fyrir því að ég greiddi á endanum atkvæði gegn málinu var sú að mér fannst vera andvaraleysi ríkjandi gagnvart þeirri breytingu. Hvað kom í kjölfarið? Við sáum það alveg gerast sem margir óttuðust og vöruðu við; drykkjan jókst í heild og færðist niður í aldri fyrstu árin eftir að bjórinn kom. Það eru tölulegar staðreyndir. Síðan leitaði það jafnvægis og þegar frá leið og einkum undanfarin tíu ár höfum við náð góðum (Forseti hringir.) árangri. Það er gleðilegt og glæsilegt. (Forseti hringir.) Það breytir engu um hitt sem (Forseti hringir.) gerðist í beinu framhaldi af tilkomu bjórsins.