144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leit einmitt á breytingartillögu hv. þingmanns frá þeim tíma og þykir hún góð, a.m.k. 2. gr. þeirrar tillögu þar sem kveðið var á um að eyða skyldi 75 milljónum á ári, minnir mig, á þáverandi verðlagi í forvarnaúrræði. Þegar kemur að þessari tillögu er sérstaklega imprað á því að auka beri forvarnaúrræði og forvarnastarf og fræðslu fyrir ungmenni, sem er mjög jákvætt og ég er fullkomlega hlynntur því. Ég hefði greitt atkvæði með þeim lið tillögu hv. þingmanns. 1. gr. þeirrar breytingartillögu sneri að því að takmarka áfengismagn í bjórnum.

Sýnir sagan okkur ekki að þetta sé ekki það sem ákvarði hvernig fer með unglingadrykkju? Sýnir þetta okkur ekki svo ekki verður um villst, bæði reynslan hér og í Bretlandi, að við ofmetum áhrif þess hversu lengi búðir eru opnar og hversu margar þær eru? Sýnir þetta ekki að við eigum að fókusera á vandann eins og hann er hjá unglingum, ekki eins og hann er hjá fullorðnu fólki? Hér er ekki verið að lækka áfengiskaupaaldur. (Forseti hringir.) Hér er ekkert verið að auka aðgengi unglinga. Það er alla vega ekki (Forseti hringir.) ætlunin. Kannski þarf breytingartillögu til að festa það í sessi. (Forseti hringir.)

Er hv. þingmaður sammála þessu?