144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvaðan á að taka þessar 400–500 milljónir sem bættust við? Þær kæmu úr ríkissjóði, hv. þingmaður. Þær gera það líka í þínu frumvarpi, hv. þingmaður, nefnilega nákvæmlega. Það að ríkið afsali sé 4% af áfengisgjaldi úr ríkissjóði í lýðheilsusjóð þýðir sambærilegt tekjutap fyrir ríkissjóð í frumvarpinu hér eins og það mundi gera ef við breyttum því í einhverju öðru samhengi. Og það getum við gert og þurfum enga kerfisbreytingu til.

Það sem hv. þingmaður sjálfsagt skilur ekki og/eða vill ekki ræða, það er auðvitað grundvallarmunurinn sem verður hvað varðar ágóðaþáttinn í þessum tveimur mismunandi kerfum. Í gegnum ríkiseinkasöluna er ágóðaþátturinn aftengdur samanber markmiðin og það sem við vorum að ræða hérna áðan. Ríkið er ekki í þessu til að græða á því peninga. Þvert á móti hefur það teygt sig í átt til aukinnar þjónustu úti um landið og það kostar. Væntanlega er dreifing áfengis núna eitthvað dýrari innan kerfisins en hún var vegna þess að veitt er meiri þjónusta. Ég tel að það sé rétt til að mæta þeim kröfum.

Í raun er það því það sem málið snýst um: Viljum við græðgisvæða brennivínssölu eða ekki? (Forseti hringir.) Hér er kominn hreinræktaður fulltrúi græðgisvæðingarinnar. Ég hélt að við hefðum fengið nóg af henni fyrir hrun.