144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sparar ekki stóru orðin; græðgisvæðing, glannaskapur og ábyrgðarleysi flutningsmanna, heimskulegt að spyrja í andsvörum hv. þingmanna sem dirfast að spyrja hv. þingmann spurninga.

Ég tel að það sé einfaldlega kominn tími til þess að reynslumiklir þingmenn sýni það fordæmi í þingsal að láta af svona gamaldags kaldastríðshroka og tala málefnalega saman. Berum virðingu fyrir því að við sem hér sitjum erum öll lýðræðislega kjörin. Við höfum rétt á skoðunum okkar en við þurfum ekki að vera dónaleg hvert við annað og saka hvert annað um fávisku og skilningsleysi eða uppnefna fólk (Forseti hringir.) sem „sérfræðingana sem sömdu frumvarpið“ og ýja að því að menn viti ekkert í sinn haus.