144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki kveinka ég mér undan þessum orðum hv. þingmanns, síður en svo. Ég tel að ég hafi fært rök fyrir máli mínu, ég gerði það á minn hátt og með mínu orðalagi og bið engan afsökunar á því.

Varðandi það að ég hafi sagt að það væri heimskulegt að spyrja þá sagði ég það ekki, ég sagði að spurningin væri heimskuleg og ég stend við það. Það er annar hlutur. Ég hef hinar mestu mætur á hv. þingmanni, félaga mínum Helga, þetta er annað mál og ég stend við það.

Það hefur ósköp lítið upp á sig að ræða um stjórnmál í þáskildagatíð, ef þetta mundi, ef hitt mundi, ef og skyldi, það er bara þannig. Við getum endalaust leikið okkur með það en við höfum ekki tíma til þess, við erum að ræða hérna grafalvarlegt mál — grafalvarlegt mál. Já, og mér er þess vegna, getum við sagt, heitt í hamsi. Mér finnst þetta vera stórmál. Ég tek það mjög alvarlega þegar við ræðum grundvallarlýðheilsumál og velferðarmál, ekki síst barna og ungmenna, af þessu tagi. Ég ætlast til ábyrgðar af þeim sem fjalla um slík mál. Og mér finnst það yfirborðskennt og illa rökstutt að henda þessu í verslunina til að hún geti farið að græða á þessum viðkvæma og vandasama málaflokki sem skapar mikil vandamál í samfélagi okkar, samfélaginu óhemjulegan kostnað sem við munum sitja uppi með, ríkið, félagslegt böl og mannlegt böl og mikla harmleiki, (Forseti hringir.) sem lengi mætti ræða um.